Það sem raunverulega hefur breyst

Mikil umræða hefur átt sér stað á liðnum árum um framtíðarskipan fjármálakerfisins og ýmsar róttækar hugmyndir um breytingar hafa verið settar fram. Þeir sem tala fyrir slíkum breytingum rökstyðja mál sitt gjarnan þannig að ekkert hafi breyst á fjármálamörkuðum frá árinu 2008.Það er ekki rétt. Mikill lærdómur hefur verið dreginn af fjármálakreppunni sem skall á með fullum þunga árið 2008, enda áhrif hennar svo víðtæk að enginn vill sjá slíkt endurtaka sig. Því hefur í Evrópu jafnt sem í Bandaríkjunum verið ráðist í viðamiklar breytingar á regluverki fjármálamarkaða, auk þess sem eftirlit með þeim hefur verið stóreflt. Allar þær breytingar miða að því að berja í þá bresti sem komu fram í aðdraganda fjármálakreppunnar.Þessi vinna hefur leitt af sér grundvallarbreytingu á regluverki fjármálafyrirtækja á Íslandi. Frá árinu 2008 hafa verið teknar upp á EES-svæðinu 40 viðamiklar tilskipanir ásamt aragrúa af afleiddum reglum. Allar þessar reglur hafa verið innleiddar eða eru í innleiðingarferli hér á landi. Við bætast svo ýmsar séríslenskar reglur sem hér hafa verið settar á.Megintilgangur breytts regluverks er að draga úr áhættumyndun á fjármálamörkuðum, treysta innstæðutryggingakerfi, auka gæði og magn eigin fjár fjármálafyrirtækja og tryggja skilvirk viðbrögð við fjármálaáföllum. Þetta hefur almennt treyst stöðu fjármálafyrirtækja enda er markmiðið að tryggja að þau standi á sterkum stoðum ef á móti blæs.Samtök fjármálafyrirtækja styðja þessar breytingar og aðrar þær sem eru í farvatninu og tengjast innleiðingum á tilskipunum ESB um fjármálamarkaðinn. Samtökin hafa samt brýnt fyrir hérlendum stjórnvöldum að forðast að flétta við þessar breytingar séríslenskar reglur sem kunna að grafa undan samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja og auka kostnað við fjármálaþjónustu til heimila og fyrirtækja meira en þekkist í nágrannalöndunum. Opinber gjöld fjármálafyrirtækja eru til að mynda um þrisvar sinnum hærri hér á landi en í nágrannaríkjum, sem hluti af landsframleiðslu. Stefna samtakanna er að íslenskur fjármálamarkaður búi við sama regluverk og gildir á hinum sameiginlega markaði Evrópu.Eitt af mikilvægustu hlutverkum SFF er að stuðla að upplýstri umræðu um mikilvægi fjármálakerfisins fyrir gangverk efnahagslífsins. Það er ástæðan fyrir því að samtökin létu vinna skýrslu um þær breytingar sem orðið hafa á starfsumgjörð evrópsks fjármálamarkaðar. Sú skýrsla kom út um miðjan þennan mánuð og í henni er að finna aðgengilegt yfirlit um allar þessar breytingar, tilgang þeirra og markmið. Það er von SFF að sem flestir sem taka þátt í umræðum um fjármálakerfið kynni sér efni hennar og að úttektin skapi þannig traustan grundvöll fyrir vandaða umræðu um skipan fjármálamarkaðarins.Sjá skýrsluna Hvað hefur breyst?