Traust fjármálakerfisins og aðgerðir gegn peningaþvætti

Fjármálafyrirtæki eru í fremstu víglínu í baráttunni gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka enda er sú þjónusta sem þau veita ein af grunnstoðum efnahagslífsins. Þessi barátta er viðvarandi verkefni sem fjármálafyrirtæki taka mjög alvarlega enda er hún gríðarlega mikilvæg fyrir fjármálageirann. Þann 29. nóvember stóðu SFF fyrir ráðstefnu um varnir gegn peningaþvætti og fengu samtökin m.a. þrjá norska sérfræðinga úr fjármálageiranum til að miðla af sinni reynslu. Áhugi á ráðstefnunni var mikill og fór þátttakan langt fram úr væntingum. Góð þátttaka á ráðstefnunni ætti þó ekki að koma á óvart þar sem ljóst er að starfsmenn íslenskra fjármálafyrirtækja eru vel á verði í baráttunni gegn peningaþvætti. Í þessu samhengi má nefna að á árinu 2010 bárust 413 af 414 tilkynningum til lögreglunnar um peningaþvætti frá fjármálafyrirtækjum, og árið 2009 voru þær 483 af 484. Þessar tölur sýna hversu föstum tökum fjármálageirinn hefur tekið þessi mál. Það er umhugsunarefni að sárafáar tilkynningar berast frá öðrum aðilum en fjármálafyrirtækjum.

Á alþjóðavettvangi er mikil áhersla lögð á baráttuna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Markmið þeirrar baráttu er að vernda fjármálakerfið gegn misnotkun af þessu tagi og gera brotamönnum erfitt um vik að koma illa fengnum fjármunum í umferð. Með því er stuðlað að trausti í viðskiptum.

Peningaþvætti er ekki nýtt fyrirbæri. Það hefur verið stundað um áratugaskeið en það sem hefur breyst í áranna rás er að umfang þess en peningaþvætti á sér stað þvert á landamæri ríkja og er í eðli sínu alþjóðlegt vandamál.  Aðferðirnar eru nú flóknari, þróaðri og skipulagðari en áður og geta leitt til alvarlega samfélagslegra vandamála. Peningaþvættið gengur út á það að misnota fjármálakerfið til að koma illa fengnu fé í umferð þannig að það líti út fyrir að vera löglega fengið fé. Varnir gegn peningaþvætti eru því mikilvægur þáttur í  að stemma stigu við efnahagsbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi.

Traust fjármálakerfisins byggir á því að starfsemi fjámálafyrirtækja byggi á faglegum, lagalegum og siðferðilegum viðmiðum. Viðskiptavinir verða að geta gengið út frá því að þjálfun og hugsunarháttur þeirra sem fyrir fjármálafyrirtækin starfa mótist af reglum og grunngildum sem gilda um fjármálastarfsemi. Fjármálakerfið á því mikilla hagsmuna að gæta að koma í veg fyrir að það verði misnotað í ólöglegum tilgangi. Það er gert með því að fjármálafyrirtæki vinni gegn spillingu og setji sér skýra verkferla til að þekkja viðskiptavini sína og meti hvaðan fjármunir sem fjármálafyrirtækjum er treyst fyrir eru upprunnir.  Verði fjármálafyrirtæki fyrir því að vera misnotað af utanaðkomandi aðilum eða af starfsmönnum fyrirtækisins skaðar það orðspor viðkomandi fjármálafyrirtækis og ekki síður fjármálageirans í heild.  Því miður finnast dæmi um að þetta hafi gerst, samanber nýleg mál erlendis  en þau ættu að brýna alla hlutaðeigandi  enn frekar í að herða róðurinn í þessari baráttu

Peningaþvætti eitt og sér er aldrei sjálfstætt refsivert brot heldur tengist það alltaf öðrum brotum. Það er því ekki mjög sýnilegt. Peningaþvætti þarf því að skoða í samhengi við aðra undirliggjandi glæpi. Þannig hefur það oft sterka tengingu við skipulagða glæpastarfsemi sem stundum er alþjóðleg, við fíkniefnasölu, vopnasmygl, mansal, hryðjuverkastarfsemi og ýmis efnahagsbrot svo sem undanskot frá skatti. Peningaþvættið verður samnefnari fyrir þessi brot þar sem að brotamennirnir þurfa að leita leiða til að koma ólöglega fengnu fé í umferð. Það er áhyggjuefni að fá dómafordæmi eru til staðar á þessu sviði, þar sem sjaldan er ákært fyrir peningaþvætti. Þetta er umhugsunarvert þar sem fordæmi dómstóla hljóta að vera mikilvægur þáttur í að varða leiðina fyrir því að löggjöf um varnir gegn peningaþvætti nái sem best tilgangi sínum.

Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru samstarfsverkefni einkageirans og hins opinbera. Í þessu verkefni gegna stjórnvöld eins og lögregla, fjármálaeftirlit og skattyfirvöld lykilhlutverki. Í einkageiranum eru það ekki bara fjármálafyrirtækin sem bera þá samfélagslegu ábyrgð að tilkynna um grun um peningaþvætti til lögreglu heldur hvílir sú skylda einnig á öðrum aðilum svo sem líftryggingafélögum, lífeyrissjóðum, vátryggingamiðlurum, lögmönnum, endurskoðendum, gjaldeyrismiðlurum, fasteigna –, fyrirtækja- og skipasölum o.fl. Á sama hátt og Fjármálaeftirlitið hefur sett leiðbeinandi tilmæli fyrir hérlend fjármálafyrirtæki um hvernig þau eigi að sinna hlutverki sínu á grunni laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka væri æskilegt að stjórnvöld leiðbeindu öðrum aðilum sem hlutverki hafa að gegna á grunni laganna um hvernig þeir geti sinnt þeirri skyldu sinni sem best.  Reynslan hefur sýnt að nánast engar tilkynningar um peningaþvætti berast lögreglu frá öðrum en fjármálafyrirtækjum, sem sýnir að brotalöm er í kerfinu sem ástæða er til að sameinast um að bæta úr.

SFF munu áfram beita sér fyrir umræðu á þessum vettvangi til að efla það starf sem nú er unnið á þessu sviði hér á landi.