Umræðan um afkomu bankanna
Það er ekkert óeðlilegt við það að samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna í fyrra veki upp spurninga. Eins og fram hefur komið í opinberri umræðu nemur hann um 81 milljarði króna. Hætt er við því að fátt verði um svör eða þá að rangar ályktanir séu dregnar þegar eingöngu er einblínt á hagnaðartölurnar.Ekki er hægt að horfa á hagnaðinn án þess að taka tillit til þeirrar staðreyndar að eigið fé stóru viðskiptabankanna er gríðarlega hátt eða tæplega 600 milljarðar króna. Arðsemi bankanna reiknast af þessu mikla eigin fé en í fyrra nam arðsemishlutfallið 14,6%. Það er litlu hærra en á árinu á undan og sambærilegt við árið 2012.
ARÐSEMISKRAFA RÍKISINS
Þegar rýnt er í arðsemina er gagnlegt að hafa tvennt í huga: Í fyrsta lagi hvaða arðsemiskröfu íslenska ríkið gerir til eignarhlutar síns í stóru viðskiptabönkunum þremur og í öðru lagi hvernig hagnaðurinn er tilkominn.Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um samkeppni á fjármálamarkaði frá árinu 2013 segir: „Bankasýsla ríkisins gerir kröfu um 14,7% langtímaarðsemi eigin fjár þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í og er þá miðað við 12% eiginfjárgrunn (án víkjandi lána). Miðað við 12% eiginfjárgrunn svarar þessi krafa til um 40 milljarða króna hagnaðar bankanna ef aðeins væri litið til eins árs í senn.“ Eiginfjárhlutfall bankanna í dag er að meðaltali um 28% og rétt er að taka fram að fáheyrt er á Vesturlöndum að eiginfjárstaða banka sé svo sterk. Arðsemishlutfallið árið 2014 nam 14,6% eins og fyrr segir eða tæplega þeirri kröfu sem Bankasýslan, sem gætir hagsmuna almennings fyrir hönd ríkisins, gerir til langtímaarðsemi.Frá stofnun nýju bankanna hefur réttilega verið bent á að hagnaður þeirra hefur að stórum hluta komið til vegna óreglulegra þátta sem tengjast ekki grunnrekstri þeirra. Í nýlegri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA) á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja kemur meðal annars fram að arðsemi af starfsemi bankanna án virðisbreytinga sé 8,1%. Það er í takt við arðsemi af rekstri 100 stærstu fyrirtækja landsins á liðnum árum.Seðlabanki Íslands hefur lýst yfir ákveðnum áhyggjum af þessari stöðu. Þannig segir í fjármálastöðugleikaskýrslu bankans í október í fyrra að um 80% af hagnaði stóru bankanna megi rekja til óreglulegra liða og arðsemi grunnrekstrar stóru bankanna sé aðeins um 0,9% af heildareignum.
VAXTAMUNUR HEFUR LÆKKAÐ
Í umræðunni um afkomu bankanna hafa verið dregnar ályktanir að hagnaðurinn sé tilkominn vegna mikillar arðsemi af fjármálaþjónustu við heimili og fyrirtæki í krafti óeðlilegs vaxtamunar. Þetta stenst ekki skoðun eins og áhyggjur Seðlabankans gefa til kynna. Vissulega er rétt að vaxtamunur íslenskra banka er meiri samanborið við stærstu banka Norðurlanda. En eins og fram kemur í áðurnefndri úttekt efnahagssviðs SA hefur vaxtamunur farið lækkandi frá árinu 2012 þegar hann náði hámarki. Það ár var vaxtamunur um 3,3% en síðan þá hefur hann lækkað jafnt og þétt. Á fyrri hluta ársins 2014 var vaxtamunurinn 2,7%. Þetta er merki um samkeppni og hagræðingu. Vaxtamunurinn er enn sem komið er meiri en hann var á árunum 2002 til 2008 en sem fyrr segir er skýringuna á því að finna í breyttri samsetningu efnahagsreikninga bankanna, þ.e. mun minna vægi stórra lána til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga og meira vægi innlánsfjármögnunar á kostnað skuldabréfafjármögnunar. Auk þess hafa tímabundnir þættir á borð við endurmat á lánasöfnum sem keypt voru af gömlu bönkunum, og aðferðir við reikningsfærslu þeirra, leitt til hærri vaxtamunar en ella. Samfara því að áhrif slíkra tímabundinna þátta fara þverrandi má ætla að vaxtamunur geti lækkað enn frekar.
BREYTT REGLUUMGJÖRÐ GÆTI LEITT TIL ENN LÆGRI VAXTAKOSTNAÐAR
Einn þáttur sem er á valdi stjórnmálamanna hefur leitt til þess að vaxtamunur er hærri en ella: opinberar álögur. Áætlanir SFF gera ráð fyrir að aðildarfélög samtakanna hafi greitt 40 milljarða króna í skatta og opinber gjöld á árinu 2014. Er það 30% hækkun frá árinu 2013. Þá hafa ótekjutengd gjöld, þ.e. gjöld ótengd afkomu rekstrar, margfaldast á sama tíma, farið úr 4,1 milljarði króna árið 2007 í að vera áætluð ríflega 16 milljarðar króna árið 2014. Mótsögnin sem felst í því að kalla eftir lægri vaxtamun fjármálafyrirtækja á sama tíma og ótekjutengd gjöld eru hækkuð úr öllu valdi ætti að vera öllum augljós. Auk þessa er rétt að geta að skattgreiðslur stóru viðskiptabankanna þriggja sem hlutfall af hreinum vaxtatekjum námu 37% í fyrra.Aðildarfélögum SFF er umhugað að standa vörð um samkeppnisfærni íslenska fjármálakerfisins. Síðasta haust fengu samtökin sérfræðinga á vegum Oliver Wyman og Deutsche Bank til þess að gera úttekt á samkeppnisumhverfinu og koma með tillögur um hvað mætti styrkja þannig að íslenskum fyrirtækjum og heimilum stæðu til boða fjármálaþjónusta í fremstu röð. Niðurstöður þeirra voru kynntar á ársfundi SFF í nóvemberlok. Í stuttu máli bentu sérfræðingarnir á að eiginfjárhlutfall íslensku bankanna í dag er mun hærra en eiginfjárhlutfall erlendra banka. Þar sem eigið fé ber ekki vexti leiðir þetta til hærri vaxtamunar heildareigna hjá íslenskum bönkum en ella. Það eitt að lækka eiginfjárkröfur á bankanna gæti leitt til umtalsverðrar lækkunar á vaxtamuninum. Þannig var bent á að unnt yrði að minnka vaxtamun íslenska bankakerfisins um fjórðung ef eiginfjárhlutfall bankanna yrði lækkað um fimm prósentustig – úr 24% í 19% - samhliða öðrum breytingum. Einnig var bent að væri fjármálafyrirtækjum heimilt að samreka bakvinnslukerfi eins og dæmi eru um annars staðar gæti það dregið verulega úr rekstrarkostnaði og þar með lækkað vaxtamun. Þetta ásamt skynsamlegri skattlagningu – þar sem dregið yrði úr vægi ótekjutengdra gjalda – gæti orðið til þess að vaxtamunur myndi lækka hraðar en ella. Þessar niðurstöður eru aðgengilegar á heimasíðu SFF.
LOKAORÐ
Mikið eigið fé er í bundið í bönkunum og íslenska ríkið gerir arðsemiskröfur eins og aðrir hluthafar. Bankarnir hafa staðið undir þeirri kröfu meðal annars vegna sérstakra þátta hverra áhrifa mun ekki gæta til frambúðar. Arðsemi af reglulegri starfsemi er í takt við það sem gerist hjá 100 stærstu fyrirtækjum landsins en þyrfti að aukast eins og Seðlabankinn bendir á. Um þá staðreynd er starfsfólk bankanna meðvitað enda er unnið markvisst að aukinni skilvirkni og hagræðingu því samkeppnin um viðskiptavini er hörð.