Vara við þjófnaði á greiðslukortum eldri borgara

Lögreglan á bæði höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi hafa að undanförnu varað við þjófagengjum sem hafa stolið greiðslukortum af fólki hér á landi, og virðist hópurinn herja sérstaklega á eldri borgara. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni fylgjast þjófarnir með fólki slá inn pin númer korta í hraðbönkum eða verslunum. Í kjölfarið hafa þjófarnir stolið kortum af fólki og farið beint í næsta hraðbanka og tekið út eins háa fjárhæð af greiðslukortunum og hægt er. Lögreglan bendir á að því miður séu dæmi um þjófarnir haft töluverðar upphæðir upp úr svikunum.

Því er brýnt fyrir fólki að fara passa vel upp á pin númerin sín og greiðslukortin. Einnig er fólk hvatt til að grípa strax til aðgerða verði það fyrir barðinu á þjófunum með því að hafa beint samband við sinn banka eða kortafyrirtæki og láta loka greiðslukortum. Í mörgum tilfellum er einnig hægt að byrja á að frysta kort í bankaappi í snjallsímum. Þá er fólk einnig hvatt til að setja sig í samband við lögreglu og tilkynna málið í síma 112.