Varúð - Svikahrappar herja á einstaklinga með rafræn skilríki í símum!

Samtök fjármálafyrirtækja vekja athygli á færslu, sem birtist nýverið á Facebook síðu Auðkennis, og snýr að svikahröppum sem herja á einstaklinga með rafræn skilríki í símum.Færslan er hér birt í óbreyttri mynd í forvarnar- og fræðsluskyni:Nýlega fékk starfsmaður Auðkennis símtal frá Lukas nokkrum sem sagðist hafa fengið tilkynningu um að viðkomandi starfsmaður Auðkennis hefði tapað 700.000 krónum í einhverjum svikum á netinu. Lukas sagðist vilja endurgreiða peningana en fyrst þyrfti starfsmaðurinn að staðfesta að um réttan aðila væri að ræða með því að samþykkja beiðni með rafrænum skilríkjum á síma. Um leið og það væri búið gæti Lukas borgað honum þessa upphæð sem tapaðist beint inn á bankareikning starfsmannsins.

Eftir 15 misheppnaðar tilraunir til að fá starfsmanninn til að slá inn PIN til að hleypa Lukas inn í netbankann bauð Lukas starfsmanninum að taka yfir tölvuna hans og aðstoða hann við að skrá sig inn í netbankann. Starfsmaður Auðkennis setti upp sérstaka tölvu sem Lukas fékk að taka yfir og skoða. Auðvitað gekk ekkert þar heldur þar sem starfsmaðurinn neitaði ávallt staðfestingu á innskráningarbeiðni rafrænna skilríkja en Lukas vissi það ekki. Á endanum hætti Lukas en ætlaði að hafa samband síðar þegar kerfið væri farið að virka aftur því það hlyti að vera eitthvað að kerfum Auðkennis fyrst staðfesting gekk aldrei.

Auðkenni vill minna á að svara aldrei slíkum beiðnum nema öruggt sé að þú hafir ætlað að skrá þig inn. Best er auðvitað að svara ekki þessum símtölum ef ekki er reiknað með símtali erlendis frá. Vandamálið er reyndar það að svikahrapparnir geta þóst hringja úr íslenskum númerum líka.

Mundu: ALDREI að svara beiðni á síma eða í appi nema þú hafir óskað eftir slíkri beiðni t.d. við innskráningu í netbanka.Sjá má færsluna hér