Vaxtamunur fer lækkandi
Úttekt sem VR gerði á viðbrögðum viðskiptabanka við vaxtalækkun Seðlabankans í nóvember hefur vakið talsverða umræðu og orðið uppspretta fjölda frétta um þróun vaxtamunar í bankakerfinu. Inntakið í greiningu VR er að vaxtamunurinn hafi ekki minnkað þrátt fyrir stýrivaxtalækkanir Seðlabankans.Í öllum samanburði er mikilvægt að styðjast við réttar tölur til að gefa glögga mynd af því umhverfi sem er verið að lýsa. Aðferðafræði VR er því miður villandi og gefur skakka mynd af þróun mála. Ástæða þess er tvíþætt: Í fyrsta lagi fjármagna bankar og sparisjóðir sig ekki eingöngu með óbundnum innlánum. Aðrar fjármögnunarleiðir koma einnig við sögu. Í öðru lagi segja grunnvextir útlána ekki alla söguna þar sem kjör lána ráðast af grunnvöxtum og kjörvaxtaálagi. Kjörvaxtaálagið ræðst af mati á viðkomandi viðskiptavini og þeim tryggingum sem lagðar eru fram sem veð við lántöku.Sá mælikvarði sem almennt er notaður til þess að skoða vaxtamun eru hreinar vaxtatekjur í hlutfalli við eignir eða meðalstöðu eigna á því tímabili sem vaxtatekjur féllu til. Þetta er sá mælikvarði sem eftirlitsaðilar á borð við Seðlabankann styðjast við og notaður er í alþjóðlegum samanburði.Meðfylgjandi stöplarit sýnir þróun vaxtamunar banka og sparisjóða á Íslandi frá árinu 1999. Um aldamótin var vaxtamunur banka og sparisjóða almennt í kringum 3%. Vaxtamunur fór svo hratt lækkandi frá árinu 2002 samhliða miklum vexti bankakerfisins. Ástæðuna er meðal annars að finna í stórum erlendum lántökum í tengslum við þátttöku í erlendum sambankalánum og fjármögnun erlendra lána til innlendra fyrirtækja. Vaxtaálag þessara lána var lágt. Þessi lán urðu eftir í þrotabúum gömlu bankanna við endurskipulagningu bankakerfisins. Eftir stóðu nýju bankarnir sem voru að stærstum hluta fjármagnaðir með innlánum í stað erlendra lána og markaðsfjármögnunar. Þetta varð til þess að vaxtamunurinn jókst á ný og varð svipaður og hann var í kringum síðustu aldamót. Bankakerfið varð með öðrum orðum líkt því sem það var um aldamótin.
Eins og fram kemur í nýlegri greiningu efnahagssviðs SA hefur vaxtamunur farið lækkandi frá árinu 2012 þegar hann náði hámarki. Það ár var vaxtamunur um 3,3% en síðan þá hefur hann lækkað jafnt og þétt. Á fyrri hluta ársins 2014 var vaxtamunurinn 2,7%. Þetta er merki um samkeppni og hagræðingu. Vaxtamunurinn er enn sem komið er meiri en hann var á árunum 2002 til 2008 en sem fyrr segir má finna skýringuna á því í breyttri samsetningu efnahagsreikninga bankanna, þ.e. mun minna vægi stórra lána til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga og meira vægi innlánsfjármögnunar á kostnað skuldabréfafjármögnunar. Þar að auki hafa tímabundnir þættir á borð við endurmat á lánasöfnum, sem keypt voru af gömlu bönkunum, og aðferðir við reikningsfærslu þeirra leitt til hærri vaxtamunar en ella. Samfara því að áhrif slíkra tímabundinna þátta fara þverrandi má ætla að vaxtamunur geti lækkað enn frekar.Við þetta má bæta að á síðustu árum hafa opinberar álögur á fjármálageirann aukist gríðarlega. Áætlanir SFF gera ráð fyrir að aðildarfélög samtakanna borgi tæpa 40 milljarða króna í skatta og opinber gjöld á árinu 2014. Er það 30% hækkun frá árinu 2013. Þá hafa ótekjutengd gjöld margfaldast á sama tíma, farið úr 4,1 milljarði króna árið 2007 í að vera áætluð ríflega 16 milljarðar króna árið 2014. Til að setja þessa upphæð í samhengi má nefna að hún nemur 18% af hreinum vaxatekjum viðskiptabankanna árið 2013. Mótsögnin sem felst í því að kalla eftir lægri vaxtamun fjármálafyrirtækja á sama tíma og ótekjutengd gjöld eru hækkuð úr öllu valdi ætti að vera öllum augljós.Þá er mikilvægt að hafa í huga að eiginfjárhlutfall íslensku bankanna í dag er mun hærra en eiginfjárhlutfall erlendra banka. Þar sem að eigið fé ber ekki vexti leiðir þetta til hærri vaxtamunar heildareigna hjá íslenskum bönkum en ella. Það eitt að lækka eiginfjárkröfur á bankana gæti leitt til umtalsverðrar lækkunar á vaxtamuninum. Í úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman gerði fyrir Samtök fjármálafyrirtækja fyrr í vetur kom fram að hægt yrði að minnka vaxtamun íslenska bankakerfisins um fjórðung ef eiginfjárhlutfall bankanna yrði lækkað um fimm prósentur – úr 24% í 19% - samhliða öðrum breytingum.Greining Seðlabanka á afkomu bankannaÍ nýjustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika í október sl. er greining á afkomu bankanna. Niðurstaða greiningar Seðlabankans er að í heild sé afkoma bankanna góð. Arðsemi heildareigna banka var 3,2% á fyrri hluta ársins 2014 sem Seðlabankinn telur mikla í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar er í skýrslunni bent á að um 80% af hagnaðinum megi rekja til óreglulegra liða og arðsemi grunnrekstrar stóru bankanna sé aðeins um 0,9% af heildareignum. Í skýrslunni er dregið fram að rekstrargjöld stóru bankanna þriggja séu um 2,5% af heildareignum. Meðal annars í þessu ljósi leggur Seðlabankinn til að farið verði varlega í arðgreiðslur úr bönkunum á næstu misserum.Raunvextir hafa hækkaðÞrátt fyrir stýrivaxtalækkanir Seðlabankans í nóvember og desember sl. hefur ávöxtun verðtryggðra skuldabréfa farið hækkandi á undanförnum misserum. Í ársbyrjun 2014 var ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa um 2% en er nú milli 3% og 3,5%.
Líklegt má telja að hækkandi raunvextir Seðlabankans hafi stuðlað að þessari hækkun. Raunvextir Seðlabankans hafa hækkað vegna þess að stýrivextir hafa ekki lækkað til jafns við lækkandi verðbólgu. Eins og sést á meðfylgjandi línuriti sem tekið er úr skýrslu Seðlabankans um peningamál frá nóvember sl. er mikil samfylgni milli verðtryggðra vaxta og raunvaxta eða raunavaxtaígildi stýrivaxta Seðlabankans. Veruleg hækkun hefur orðið á raunvöxtum Seðlabankans undanfarin misseri og hefur það togað upp vexti á verðtryggðum skuldabréfalánum banka og sparisjóða. Þessi hækkun vaxta á verðtryggðum markaðsskuldabréfum setur þrýsting á hækkun kjara á verðtryggðum inn- og útlánum. Beinust eru áhrifin þar sem verðtryggð útlán eru fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa á verðbréfamarkaði, eins og t.d. verðtryggð íbúðalán með vaxtabindingu. Einhver fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir eru farin að bregðast við þessar vaxtahækkun á skuldabréfamarkaði og hækka vexti sína.