Vel heppnaður fundur Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnhagsráðherra með aðildarfélögum SFF

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mætti á fund aðildarfélaga SFF í kjölfarið á aðalfundi SFF í gær.

Vel var mætt af hálfu aðildarfélaga því ljóst að málefni þeirra ráðuneyta sem Bjarni stýrir er aðildarfélögum hugleikin. Bjarni kom víða við í ræðu sinni og var m.a. rætt um áframhaldandi sölu ríkiseigna þ.m.t. Íslandsbanka, bankaskatta, aukið regluverk, fortíðarvanda Íbúðalánasjóðs og samningaviðræður við eigendur svokallaðra HFF bréfa. Rætt var um lánshæfismat Íslands sem aðilar voru almennt sammála um að mætti bæta. Nokkur umræða var um verðbólgu og vexti sem og þann vanda sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir en afar mikilvægt er að ná samkomulagi um að verja þann kaupmátt sem náðst hefur. Þá var farið yfir horfur í efnahagsmálum, aukinn kostnað í ríkisreksti og erfiðleika við að hemja hann og loks rætt um velþekktan og illa þokkaðan verðbólgudraug og þau vandræði sem honum fylgja.  Ljóst er að verkefnin framundan eru margvísleg og krefjandi en vert er að halda því til haga að það eru mörg jákvæð teikn í þjóðarbúskapnum.

Við færum Bjarna þakkir fyrir komuna.