Vextir í sögulegu lágmarki
Frá efnahagskreppunni 2008 hafa vextir hér á landi í heild verið lækkandi. Í ársbyrjun 2009 var ávöxtun á óverðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs á bilinu 9%-10% og vextir á verðtryggðum ríkisskuldabréfum skutust upp tæp 6%. Nú á miðju ári 2020 er ávöxtun á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á bilinu 1% til 2% og ávöxtun á verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs er orðin neikvæð, á bilinu -0,2% til -0,7%.
Helstu áhrifavaldar þessarar þróunar eru tveir. Annars vegar eru stýrivextir Seðlabankans í sögulegu lágmarki, en þeir eru núna 1%. Leggjast þar saman staða hagsveiflunnar og sérstök áhrif vegna heimsfaraldursins. Stýrivextir móta að miklu leyti vexti og ávöxtun á stuttum óverðtryggðum skuldbindingum. Stýrivextir Seðlabankans eru vextir á skuldbindingum til eins dags eða viku. Hins vegar hefur innlendur fjársparnaður farið jafnt og þétt vaxandi og framboð hans inn á markaðinn hefur stuðlað að lækkandi ávöxtun á lána- og skuldabréfamarkaðnum, ekki síst á skuldbindingum með vaxtabindingu til milli- og langstíma þar sem áhrifa stýrivaxta Seðlabankans gætir alla jafna minna.Vöxtur innlends fjársparnaðar á sér reyndar mun lengri sögu en aftur til 2009 en endurreisn hans hófst í raun með upphafi almennrar heimildar til verðtryggingar árið 1979 og einnig til vaxtafrelsins sem komið var árið 1986. Við vaxtafrelsið skaust ávöxtun á löngum verðtryggðum ríkisskuldabréfum upp í tæp 9% vegna þess ójafnvægis sem var milli framboðs og eftirspurnar en hefur smám saman lækkað eftir því sem innlendum fjársparnaði hefur vaxið fiskur um hrygg.Þegar verðtrygging sparifjár og lánsfjár var heimiluð 1979 var hlutfall innlána í innlánsstofnunum komið niður í 20% af landsframleiðslu. Undanfarin ár hefur þetta hlutfall verið um 70-80%. Enn mikilvægar er vöxtur annars fjársparnaðar ekki síst í lífeyrissjóðunum sem nú eiga eignir sem samsvara um 190% af landsframleiðslu. Í árslok 1979 voru eignir lífeyrissjóðanna innan við 10% af landsframleiðslu. Þá hefur eigið fé fyrirtækja, sem er eitt form fjársparnaðar, einnig vaxið hratt á þessu tímabili. Ný form fjársparnaðar hafa einnig komið fram á þessu tímabili, ekki síst á verðbréfamarkaðnum.Stýrivextir í mörgum seðlabönkum í iðnríkjum eru einnig lágir, við núllið eða neikvæðir af sömu ástæðu og hér á landi. Víða eru helstu innlánsvextir orðnir neikvæðir.
Þegar horft er til lengri tíma má búast við að stýrivextir Seðlabankans hækki á ný þegar heimsfaraldurinn hjaðnar og hagvöxtur glæðist á ný. Slíkt mun leiða til hækkunar á ávöxtun stuttra skuldbindinga og lána með breytilegum vöxtum. Óvissara er hins vegar með framhaldið varðandi ávöxtun á skuldbindingum með lengri binditíma vaxta. Þar má búast við að ávöxtun haldist áfram lág í sögulegu samhengi vegna mikils framboðs lánsfjár, ekki síst áframhaldandi vaxandi fjársparnaðar í lífeyrissjóðum.
Lægri ávöxtun á skuldabréfum til vaxtabindingar til meðallangs eða langs tíma kann að hafa veruleg áhrif á það rekstrarlíkan sem í meginatriðum hefur verið lagt til grundvallar í íslenska lífeyrissjóðskerfinu. Hækka þarf iðgjöld eða skerða réttindi verði ávöxtun viðvarandi lægri en verið hefur. Hér þarf að hafa í huga að lægri vextir eru ekki séríslenskt fyrirbæri heldur hafa vextir farið lækkandi í flestum iðnríkjum allt frá aldamótum. Nú er svo komið að ávöxtun ríkisskuldabréfa í stærstu iðnríkjum eru í kringum núllið. Hugsanlegt er að þar gæti einnig áhrifa aukins fjársparnaðar eins og hér á landi, bæði vegna lífeyris og uppbyggingar opinberra fjárfestingarsjóða (e. sovereign wealth funds). Því er óvíst hvort unnt verði að bæta upp lága ávöxtun hér á landi með fjárfestingum erlendis.
Greinin birtist fyrst í Markaði Fréttablaðsins 19.ágúst s.l.