Sparnaðartillaga SFF: Þjóðhagslegur ávinningur rafrænna þinglýsinga nái alla leið
Ríkisstjórnin hefur kallað eftir hugmyndum til að hagræða og einfalda stjórnsýslu. Í sparnaðartillögu SFF sem send var í samráðsgátt stjórnvalda er bent á verkefnið um rafrænar þinglýsingar sem að mörgu leyti hefur tekist vel en hefur ekki verið fullklárað.
Rafrænar þinglýsingar urðu að veruleika hér á landi á árinu 2020 en tafir á úrbótum í lagaumhverfi rafrænna lánaforma, þannig að þeim sé veitt sambærilegt réttarfarslegt hagræði og skuldabréfum og samræmist betur rafrænni lánaumsýslu og þinglýsingu hefur illu heilli leitt til þess að handvirkt framlag lánveitenda og lántaka hefur lítið minnkað með tilkomu rafrænna þinglýsinga skuldabréfa.
Þá má gera ráð fyrir að handvirkt álag á dómstóla og sýslumenn muni aukast þar til lögum verður breytt þannig að rafræn skjöl fái sömu stöðu og pappírsskjöl. Þannig má ætla að sá ávinningur sem þegar hefur náðst hjá sýslumönnum með framkvæmd rafrænna þinglýsinga muni að einhverju leiti ganga til baka á næstunni með álagi annars staðar í kerfinu ef lögum verður ekki breytt.
Til að átta sig á umfanginu er bent á að um 50 þúsund veðskuldabréfum sé þinglýst árlega hér á landi árlega sem hver um sig kalli á ákveðna vinnu hjá ólíkum aðilum. Fyrir nokkrum árum áætlað að þjóðhagslegur sparnaður af rafrænum þinglýsingum gæti orðið 1,2 til 1,7 milljarðar króna á ári. Þar var átt við handvirkt vinnuframlag sýslumanna, lánveitenda og fasteignasala sem yrði óþarft. Við það bætist svo ávinningur af því að ekki þurfi að ferðast með pappírsskjöl á milli aðila sem og aukinn hraði viðskipta fyrir lánveitendur og fasteignasala. Sé tekið mið af þeim atriðum og almennum verðlagshækkunum síðan matið var unnið má áætla að heildar þjóðhagslegur sparnaður kunni að hlaupa á nokkrum milljörðum króna.
Því hvetur SFF ríkisstjórnin til að klári lagalegar umbætur sem allra fyrst þannig að þjóðhagslegur ávinningur af verkefninu verði sem mestur. „Nú þegar hefur mikil undirbúningsvinna farið fram innan ráðuneyta og vantar aðeins herslumuninn til að klára þetta verkefni svo allt þjóðfélagið geti notið ávinnings af því,“ segir í umsögn SFF.