20 milljarðar í sértæka skatta og gjöld á fjármálageirann
Í Morgunblaðinu í vikunni var rætt við Heiðrúnu Jóndóttur, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF), í kjölfar birtingar álagningar á lögaðila af hálfu Skattsins. Þar kom fram að íslensk fjármálafyrirtæki hafi greitt um 17 milljarða í sértæka skatta á síðasta ári. Hinir þrír sértæku skattar leggjast ofan á launagreiðslur, skuldir og hagnaði fjármálafyrirtækja. Þá greiða fjármálafyrirtæki og eftirlitsskyldir aðilar einnig gjöld til að fjármagna rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara og saman námu þessir sértæku skattar og gjöld um 20 milljörðum króna.
Heiðrún minnir á í samtali við Morgunblaðið að við þessa upphæð bætist þeir almennu skattar sem bankarnir greiða af hagnaði og launum og að allt skattspor fjármálageirans hlaupi á tugum milljarða. Óvíða séu sértækir skattar á fjármálafyrirtæki jafnháir og jafnmargir og á Íslandi og gangi ekkert hinna Norðurlandaríkjanna jafnlangt í að krefja banka um svo háa sértæka skatta. Finnland leggi t.d. ekki á neina sértæka bankaskatta og í Svíþjóð sé aðeins einn sértækur skattur á banka sem sé jafnframt mun lægri en hér á landi. Sértæk skattlagning á banka hafi að miklu leyti verið hugsuð sem tímabundin til að bæta það tjón sem ríkissjóður varð fyrir í fjármálahruninu en áætlað hafi verið að ríkissjóður hafi þegar fengið það tjón bætt árið 2016.
Til viðbótar við sértæku skattana búa íslenskir bankar við kostnað af hærri bindiskyldu en í nágrannalöndunum. Fyrir rösku ári hækkaði Seðlabankinn svokallaða óvaxtaberandi bindiskyldu úr 1% í 2% og svo í apríl á þessu ári upp í 3%. Til samanburðar er óvaxtaberandi bindiskylda á evrusvæðinu 1%. Aðilar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa litið á óvaxtaberandi bindiskyldu sem ígildi skattlagningar á fjármálastarfsemi. Seðlabankinn áætlaði í nýjustu útgáfu ritsins Fjármálastöðugleiki að hækkun bindiskyldunnar úr 1% í 3% kosti íslensku viðskiptabankana um 5,5 milljarða króna árlega ef miðað er við núverandi vaxtastig.
Helmingur reglugerða gullhúðaðar
Í viðtalinu bendir Heiðrún einnig á að í nýlegri meistararitgerð hafi komið í ljós að um helmingur þeirra Evrópureglna sem tengjast íslenska fjármálageiranum hafi verið „gullhúðuð“, þ.e. að við innleiðingu þeirra var gengið lengra en þurfti. „Í stað þess að nýta tiltæk úrræði til að fá undanþágur og beita vægari kröfum hefur sú leið of oft verið farin að gera strangari kröfur til íslenskra fjármálafyrirtækja en gert er annars staðar í Evrópu,“ útskýrir Heiðrún og lætur það fljóta með að evrópskum bönkum sem búa að mun fjölmennara starfsliði en þeir íslensku þyki mörgum nóg um umfang regluverksins. „Það er í raun farið að þykja skapa áhættu fyrir evrópsk fjármálafyrirtæki hversu flókið regluverkið er orðið í álfunni, og vandamálið því ekki einskorðað við Ísland. Hvert tilvik fyrir sig getur virst frekar léttvægt og sakleysislegt en áhrifin safnast upp þegar helmingur regluverksins hefur verið gullhúðaður og flækir innleiðingu og eftirfylgni reglnanna.“
Skert samkeppnishæfni í alþjóðlegu umhverfi
Heiðrún segir við Morgunblaðið að ekki sé hægt að líta fram hjá því að hærri álögur, hærri bindiskylda og gullhúðun regluverksins veiki samkeppnishæfni íslenska bankageirans og skerði getu bankanna til að t.d. fjárfesta í nýjum leiðum til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör. „Hafa ber í huga að bankarnir eiga í mikilli samkeppni við aðra lánveitendur s.s. á íbúðamarkaði þar sem lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklir og eins keppa þeir við erlenda aðila í stærri lánveitingum til fyrirtækja. Við sjáum æ fleiri tilvik þar sem stórir aðilar í atvinnulífinu leita til erlendra fjármálafyrirtækja og er það leitt ef sértæku skattarnir og gjöldin eiga þátt í að færa þessi viðskipti úr landinu og út fyrir íslenska hagkerfið.“
Heiðrún bendir á að leiða megi líkur að því að skatta- og gjaldaumhverfi íslenska fjármálageirans eigi þátt í að minnka áhuga erlendra aðila á að sækja inn á íslenska markaðinn og þannig efla samkeppni og þjónustuframboð enn frekar – neytendum til hagsbóta. „Þá er óhjákvæmilegt að hærri álögur og skattar á íslenska fjármálageirann hafi keðjuverkandi áhrif á allt atvinnulífið og skekki stöðu íslenskra fyrirtækja og hagkerfisins almennt til lengri tíma litið en líkt og kom fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 2018, eru sértækir skattar hluti af svokölluðu „Íslandsálagi“ sem skýrir að hluta hvers vegna vaxtamunur er meiri á Íslandi en í löndunum sem við berum okkur saman við.“
Heiðrún minnir einnig á að bankarnir séu að mestu í eigu almenningsins, þar sem ríkið og lífeyrissjóðir séu stærstu eigendur bankanna. „Því rennur afkoman af rekstri bankanna í dag að megninu til – bæði beint og óbeint – til samneyslunnar.“