Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði?

Því er stundum fleygt fram í opinberri umræðu að samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði sé lítil. Þessu hefur verið svo oft haldið fram, án haldbærs rökstuðnings, að margir eru farnir að taka þessu sem ákveðnum sannindum. Það er hins vegar ýmislegt sem styður það að hér sé samkeppnistigið ekki einungis nokkuð hátt heldur hærra en í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Svona hefst aðsend grein á Vísi eftir Gústaf Steingrímsson hagfræðing Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Gústaf segir að oft megi rekja þessa umræðu um skort á samkeppni einfaldlega til misskilnings. Þannig telja sumir t.d. að hátt vaxtastig hljóti að gefa tilkynna að samkeppni sé lítil. Því er til að svara að almennt vaxtastig er að miklu leyti utan áhrifasviðs bankanna og ræðst að mestu leyti af verðbólguþróun og stýrivaxtastigi sem er í höndum Seðlabankans.

Eðli fjármálaþjónustu styður við aukna samkeppni

Stór hluti af vöruframboði á fjármálamarkaði má kalla einsleita vöru eða þjónustu. Á slíkum markaði keppa fyrirtæki aðallega á grundvelli verðs því varan er sú sama í augum neytenda. Á slíkum markaði er einnig lítil tryggð við vörumerki. Neytendur einfaldlega velja ódýrustu vöruna burtséð frá því hver selur hana. Stærsti hluti inn- og útlána sem bankarnir bjóða s.s. húsnæðislán og yfirdráttarlán má kalla einsleita vöru og felst samkeppni þeirra á milli því fyrst og fremst í verðlagningunni á þeim lánum.

Samkeppnistig á markaði með einsleita vöru markast að verulegu leyti af neytendunum sjálfum og hversu duglegir þeir eru að elsta bestu kjörin hverju sinni. Segja má að það, hversu duglegir neytendur eru að veita markaðnum aðhald, megi mæla að einhverju leyti með því hversu mikið og títt þeir færa sín viðskipti á milli fyrirtækja. Kannanir hafa verið gerðar á hreyfanleika neytenda á fjármálamarkaði í löndum Evrópu. Gallup hefur framkvæmt samskonar könnun meðal íslenskra neytenda. Niðurstaðan er sú að Íslendingar eru langduglegastir Evrópuþjóða að færa sig á milli fjármálafyrirtækja og eru þeir þar mjög langt frá meðaltalinu. Út frá því má ætla að engir neytendur í Evrópu veiti fjármálafyrirtækjum jafn mikið aðhald í verðlagningu á fjármálaþjónustu.

Stigin hafa verið skref til að efla samkeppnisstigið

Þessi mikli hreyfanleiki kemur þó ekki alveg úr tómarúmi. Þannig hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að auka þennan hreyfanleika og hafa stjórnvöld m.a. aukið hvata til þess að hægt sé að færa fjármálaviðskipti milli einstakra fyrirtækja með því að lækka þröskulda fyrir slíku, t.d. hvað snýr að takmörkun á uppgreiðslugjaldi lána og afnámi stimpilgjalda. Við þetta má bæta að það er leitun að Evrópulandi þar sem jafn auðvelt er að stofna innlánsreikning, til þess að elta bestu innlánsvextina, eins og er hér á landi. Í sumum löndum getur þetta verið töluvert mál og tekið nokkra daga. Þar er mun erfiðara fyrir neytendur að veita fyrirtækjunum sama aðhald.  

Arðsemi undir Evrópumeðaltalinu þrátt fyrir hagstæð kostnaðarhlutföll

Fleiri vísbendingar benda í þá átt að hér á landi séu mtalsverð samkeppni á fjármálamarkaði. Arðsemi eigin fjár hefur t.d. verið lægri en að meðaltali í Evrópu í töluvert langan tíma. Hér er rétt að hafa í huga að mikil hagræðing hefur átt sér stað í íslenska bankakerfinu allt frá hruni. Sú hagræðing hefur skilað því að kostnaðarhlutföll íslenskra banka eru lág í samanburði við önnur Evrópulönd. Lág arðsemi eigin fjár verður því ekki rakin til óhóflegs kostnaðar í rekstri.

Þessu til viðbótar sýnir ný skýrsla Evrópska bankaeftirlitsins að af 22 Evrópuþjóðum var mismunur á inn- og útlánsvöxtum bankanna einn sá minnsti hér á landi í fyrra og að hann hafi lækkað verulega milli áranna 2021 og 2023. Það bendir til verðsamkeppni bæði á inn- og útlánsvöxtum.

Heilt yfir má segja að eðli fjármálaþjónustu, gagnsæi og lágir þröskuldar fyrir neytendur til að skipta á milli fjármálafyrirtækja hafi skilað sér í miklum hreyfanleika hér á landi sem hafi skapað verulegt aðhald frá neytendum í samkeppnislegu ljósi.

Greinina í heild má lesa hér.