Umræða um bankana hefur áhrif á lánshæfið
Opinber umræða um íslensku bankana er metinn sem sérstakur áhættuþáttur í lánshæfni íslenska bankakerfisins sem leiðir til verri vaxtakjara fyrir bankana. Það gæti svo aftur skilað sér í hærri útlánavöxtum til heimila og fyrirtækja hér á landi. Þetta er meðal annars sem kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Heiðrúnu Jónsdóttur framkvæmdastjóra SFF sem birtist 9. des.
Alþjóðamatsfyrirtækið Moody‘s hefur metið þetta sem sérstakan áhættuþátt og vísaði sérstaklega til opinberrar umræðu hérlendis bæði af hendi stjórnamálamanna og almennings. „Fjármálakerfið er sannarlega ekki hafið yfir gagnrýni. En það hefur loðað við umræðuna að hún getur verið óvægin og óvarkár. Er það reyndar alveg skiljanlegt ef pirringur almennings beinist að bönkunum enda er það á greiðsluseðlum bankanna sem fólk sér t.d. áhrif hærri stýrivaxta koma fram. Mættu ekki síst kjörnir fulltrúar stundum vanda sig ögn betur því vanhugsuð og yfirspennt ummæli þeirra hafa í för með sér orðsporsáhættu sem gæti valdið bönkunum og viðskiptavinum þeirra viðbótarkostnaði að óþörfu, t.d. þegar það hefur áhrif á einkunn matsfyrirtækja eins og kom fram hjá Moodys. Við þurfum öll að vanda okkur í orðfæri og störfum okkar, alla daga og alltaf,“ sagði Heiðrún í viðtalinu sem nálgast má hér.
Íslandsálagið 1%
Í viðtalinu sem birtist í heild sinni í Morgunblaðinu kom einnig fram að með því að létta af fjármálakerfinu alls kyns séríslenskum álögum og skilyrði gæti myndast svigrúm til að lækka útlánavexti bankanna á bilinu 0,96-1,15 prósentustig. Þessi tala, sem er hluti af svokölluðu Íslandsálagi, kom fram í nýúkominni skýrslu Gunnars Haraldssonar, hagfræðings hjá Intellecon, um Þjóðhagsleg áhrif og rekstrarumhverfi fjármálageirans á Íslandi. Í skýrslunni kom fram að skattgreiðslur íslenskra banka væru mjög háar m.v. aðra banka í Evrópu og íslenskir bankar þyrftu líka að verða við ýmsum kröfum og skyldum, s.s. um bindiskyldu og eiginfjárhlutfall, umfram það sem tíðkast hjá öðrum Evrópulöndum.
Heiðrún undistrikaði þó að taka verði tölum Intellecon með ákveðnum fyrirvara, og að bankarnir myndu væntanlega bregðast við með ýmsum hætti ef Íslandsálaginu yrði létt af fjármálageiranum. „Það væri undir hverjum og einum þeirra komið en þetta viðbótarsvigrúm mætti t.d. nota til að fjárfesta í nýrri tækni til að auka skilvirkni, eða nýta til að bæta þjónustu við viðskiptavini, greiða út hærri arð ellegar bjóða viðskiptavinum betri vaxtakjör,“sagði Heiðrún.
Skýrslan og kynning Gunnars á henni má sjá hér.