Mikilvægt að passa sig á netsvikum í jólaversluninni
RÚV fjallaði um bíræfið netsvindl sem Friðrik Ómar Hjörleifsson tónlistarmaður lenti í eftir að hafa keypt vöru erlendis í gegnum netið. Friðrik fékk af því er virðist póst frá Póstinum en pósturinn var hins vegar frá svikahröppum sem voru á villa á sér heimildir. Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF var í stuttu viðtali við RÚV vegna þessa og benti á mikilvægi þess að passa sig sérstaklega vel þegar kemur að rafrænum skilríkjum. Fréttin var fyrsta frétt í Tíufréttum RÚV 2. desember og má sjá fréttina hér.
Aðferðir svikahrappa til að komast inn í gegnum rafræn skilríki verða sífellt algengari, þróaðri og bíræfnari. Svikarar fái t.d. símanúmer í gegnum messenger eða hringi í aðila. Þá geta möguleg fórnarlömb fengið skilaboð frá „vini eða fjölskyldumeðlim“ um að sá þurfi að komast inn í gegnum rafræn skilríki. Mikilvægt er að fullvissa sig um í slíkum aðstæðum að ekki sé um svik að ræða með því að hringja í viðkomandi vin eða fjölskyldumeðlim.
Gott er að hafa í huga eftirfarandi:
- Aldrei á heldur að samþykkja óþekktar innskráningar eða aðgerðir í netbanka/appi s.s. millifærslur eða kortafærslur.
- Ekki gefa upp bankaupplýsingar, kortanúmer og pinnúmer til óþekktra aðila.
- Ekki hlaða niður óþekktum forritum eða opna varasama hlekki.
- Aldrei senda peninga til aðila sem þið hafið kynnst á netinu. Oft er um tilbúnar persónur að ræða sem geta virkað afar trúverðugar. Fjárglæframenn eru vissulega fremur vinalegir og góðir í að tala fólk til.
- Aldrei samþykkja að verða milliliðir í flóknum fjármálagerningum sem þið þekkið ekki, jafnvel gegn greiðslu.
- Hafðu strax samband við bankann þinn og lögreglu ef þú telur að þú hafir orðið fyrir svikum.