Bankar og heimili
Í opinberri umræðu er afkoma af bankarekstri oft sett í samhengi við greiðslubyrði heimila af húsnæðislánum. Það er skiljanlegt enda finnur almenningur fyrir stýrivaxtastiginu í gegnum hærri greiðslubyrði af lánum.
Í þessu samhengi er rétt að benda á nokkur atriði.
Heimili einungis hluti af viðskiptavinum banka
Á síðasta ári nam afkoma þeirra starfssviða viðskiptabankanna þriggja sem stunda lánveitingar og almenna bankaþjónustu til einstaklinga, að meðaltali um 25 prósent af hagnaði ársins. Fleira en viðskipti við heimilin er þó undir starfsemi þessara sviða, á borð við viðskipti við smærri fyrirtæki og tryggingastarfsemi. Því má ætla að hagnaðar bankanna af lánveitingum og almennri bankaþjónustu við heimilin sé lægra hlutfall heildarhagnaðarins. Meirihluti afkomunnar er því kominn frá öðrum hlutum rekstarins enda þjónusta fjármálafyrirtæki fjölbreyttan hóp fyrirtækja og opinberra aðila, ásamt því að sinna miðlun á gjaldeyri og verðbréfum, eignastýringu, eigin viðskiptum og tryggingastarfsemi svo dæmi séu tekin.
Afkoma banka í samanburði við nágrannalöndin og aðrar greinar
Hvað varðar afkomu viðskiptabankanna má benda á að hlutabréfaverð skráðra banka hér á landi hefur ýmist staðið í stað eða lækkað undanfarin þrjú ár. Þó hagnaður bankanna sé hár í krónum talið hefur arðsemi af bankarekstri hér á landi verið lakari en bæði meðal banka annars staðar í Evrópu og almennt í fyrirtækjarekstri hér á landi, sé horft til afkomu fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu, eins og Hagstofan skilgreinir það. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að íslensku bankarnir hafi náð miklum árangri í hagræðingu undanfarin misseri ekki síst vegna tækninýjunga og sjálfvirknivæðingar og að hagvöxtur hér á landi hafi samtals numið um 20 prósent árin 2021 til 2023.
Þar er rétt að hafa í huga að í bankarekstri, ólíkt flestum öðrum tegundum rekstrar, gilda strangar reglur af hálfu eftirlitsaðila umhversu mikið eigið fé ber að binda á í rekstrinum. Þetta hefur leitt af sér hærri eiginfjárbindingu hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Eigið fé viðskiptabankanna þriggja er alls um um 700 milljarðar króna, og þar af tilheyra yfir 500 milljarðar ríkissjóði og lífeyrissjóðum sem aðaleigendur viðskiptabankanna.
Arðsemi eigin fjár viðskiptabankanna nam 10,3 prósentum að jafnaði á fyrri hluta ársins og hefur lækkað í takt við minni umsvif í hagkerfinu til viðbótar við niðurfærslur lána vegna jarðhræringana við Grindavík. Á sama tímabili var arðsemin einungis lægri í fjórum af þrjátíu Evrópulöndum í samantekt Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) og var til að mynda á bilinu 12,6 til 15,4 prósent á hinum Norðurlöndunum.
Þannig hefur bankarekstur reynst ábatasamari í nágrannalöndunum þar sem stýrivextir hafa verið lægri. Þá er rétt að hafa íhuga að markmið stýrivaxtahækkana er að draga úr eftirspurn í hagkerfinu og þar með talið að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og annarri fjármálaþjónustu, sem leiðir af sér lakari afkomu fjármálafyrirtækja að öðru óbreyttu.
Jákvæð þróun á ýmsum sviðum fyrir neytendur þrátt fyrir háa vexti
Á sama tíma og vaxtastig er hátt eru ýmsar vísbendingar umað vaxtamunur sem snýr að neytendum, þ.e. mismunur á inn- og útlánsvöxtum, hafi farið lækkandi. Umfjöllun því til stuðnings má bæði finna í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um viðskiptabankana frá því á síðasta ári og nýlegri skýrslu Evrópska bankaeftirlitsins. Í báðum skýrslunum kemur fram að munur á inn- og útlánsvöxtum til neytenda hafi lækkað hér á landi á síðustu árum og sé í lægri kantinum í samanburði við önnur ríki Evrópu og hin Norðurlöndin.
Þá mældist hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi meiri en í öllum löndum ESB samkvæmt könnun sem Gallup vann fyrir SFF nýverið. Íslenskir neytendur eru þannig duglegri en aðrir að kjósa með fótunum eftir þvísem bestu kjörin bjóðast hverju sinni. Þar keppa bankar bæði sín á milli og við ýmsa aðra aðila sem bjóða neytendum fjármálaþjónustu. Á húsnæðislánamarkaði eru til að mynda um tuttugu lánveitendur, þar með talið lífeyrissjóðir og hiðopinbera.
Sennilegar skýringar á hinum mikla hreyfanleika í erlendumsamanburði er að aðgengi að fjármálaþjónustu hefur aukist í gegnum heimabanka og snjallsímaöpp, neytendur hafa fleiri valkosti en áður og ýmsum hindrunum hefur verið ýtt úr vegi í lagaumhverfinu sem gera fólki auðveldara að færa viðskipti sín á milli fjármálafyrirtækja.
Skiljanlegt er miðað við núverandi vaxtastig að lántakar sjái þessa þróun ekki glögglega. Þeir hópar neytenda sem hafa helst notið góðs af þessari þróun eru að líkindum annars vegar sparifjáreigendur, en að undanförnu hafa óverðtryggðir innlánsvextir á sparnaðarreikningum í bönkum verið um 9 prósent, og hins vegar þeir aðilar sem festu vexti óverðtryggðra húsnæðislána sinna til þriggja og fimm ára á meðan vaxtastig var sem lægst í faraldrinum. Vonandi kemur þessi þróun í ljós með enn skýrari hætti þegar vaxtastig lækkar frekar.
Höfundur er greininga- og samskiptastjóri Samtakafyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Pistilinn birtist á Innherja, viðskiptavef Vísis, 9. október.