19 milljarða sérskattar og gjöld á fjármálafyrirtæki
Í Morgunblaðinu í dag ræðir Ásgeir Ingvarsson blaðamaður við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing SFF, um sérskatta og gjöld sem sem lögð eru á fjármálafyrirtæki hér á landi.
Í greininni kemur fram að fjármálafyrirtæki greiði ríflega 16 milljarða í þrjá sérskatta á ári og fjármagni einnig rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara. Þegar allt er talið samsvari sérálögur á fjármálafyrirtæki, sem ekki eru lagðar á aðrar atvinnugreinar, um 19 milljörðum á ári.
Skattarnir séu mun hærri en viðgengst í nágrannalöndum Íslands og komi niður á samkeppnishæfni greinarinnar. Þó í almennri umræðu sé stundum talað um bankaskattinn séu sérskattarnir í reynd þrír og leggjast ofan á laun, hagnað og skuldir:
- Skattur sem nemur 5,5% af heildarlaunagreiðslum.
- Viðbótartekjuskattur sem nemur 6% af hagnaði umfram milljarð og kemur til viðbótar við hefðbundinn 20% tekjuskatt.
- 0,145% skattur af heildarskuldum umfram 50 milljarða króna.
„Bankarnir greiða vitaskuld önnur gjöld, s.s. hefðbundinn tekjuskatt af hagnaði og tryggingagjöld af launum, og má áætla að skattspor greinarinnar sé í heildina á bilinu 30 til 40 milljarðar á dæmigerðu ári,“ segir Yngvi í viðtalinu.
Yngvi bendir jafnframt á í viðtalinu að kostnaður samfélagsins felist m.a. í því að þyngri byrðar skerði getu fjármálageirans til nýsköpunar og þjónustu og skekki markaðinn með ýmsum hætti og sé hætt við að komi niður á hagkerfinu í heild. „Skattar af þessu tagi eru ekki teknir úr loftinu, og það sem er íþyngjandi fyrir bankana er – þegar upp er staðið – líka íþyngjandi fyrir viðskiptavinina í einhverjum skilningi, þ.e. fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu,“ útskýrir Yngvi.
„Skattarnir skekkja samkeppni á lánamarkaði m.a. með þeim hætti að lánveitendur á borð við lífeyrissjóðina losna við þá viðbótarskatta sem lagðir eru á bankana,“ bendir Yngvi á.
Þá er vísað til nýlegra áforma ítalskra stjórnvalda um svokallaðan hvalrekaskatt á ítalska banka. Áform Ítala hafi byggt á því að leggja í eitt skipti á sérstakan skatt sem yrði ekki hærri en 0,1% af eignum þarlendra banka. Til samanburðar greiði íslensku bankarnir sem samsvarar um 0,3% af eignum í sérstaka viðbótarskatta á hverju ári.
Í greininni kemur jafnframt fram að sértæku bankaskattana megi rekja til fjármálakreppunnar 2008. Sköttunum hafi að einhverju leyti verið ætlað að mæta kostnaði sem ríkissjóður varð fyrir við fall bankanna en hafi ekki endanlega ætlað að vera varanlegir. „En svo hafa þeir bara fest í sessi og valdið því að skattbyrði fjármálageirans er mun hærri en hjá nágrannalöndunum,“ segir Yngvi.