AFNÁM HAFTA SKAPAR TÆKIFÆRI TIL ÚRBÓTA

Fundur SFF og Nasdaq Iceland í morgun um stöðu mála á íslenskum verðbréfamarkaði í kjölfar afnáms fjármagnshafta var vel sóttur. Þetta er annað árið í röð sem SFF og Kauphöllin standa sameiginlega fyrir fundi um verðbréfamarkaðinn.Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði fundinn. Hann sagði meðal annars að honum virtist sem svo að erlendir fjölmiðlar hafi áttað sig betur en íslenskur almenningur á hversu stór tíðindi fyrir Ísland afnám haftanna fælu í sér. Merkileg tímamót væru runnin upp og tækifærin fram undan væru mikil. Það sama gilti um áskoranirnar.Benedikt gerði einnig eftirlit og umræðu um aðskilnað ákveðinna tegunda bankastarfsemi að umtalsefni. Varðandi það fyrrnefnda sagði Benedikt að skilvirkt eftirlit fælist ekki í að starfsmenn fjármálafyrirtækja væru sífellt að fylla út skýrslur til eftirlitsaðila sem svo engin viðbrögð fengjust við. Vísaði Benedikt þarna til reynslu sinnar sem stjórnarmanns í vátryggingafélagi.Hvað aðskilnað fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfstarfsemi varðar sagði Benedikt skilja vel þá umræðu. Hins vegar væri nauðsynlegt að umræðan byggði á skýrri skilgreiningu á hvað fælist í fjárfestingabankastarfsemi og hvað ekki. Í því samhengi sagði Benedikt að hann teldi enga ástæðu til þess að banna viðskiptabönkum að annast hlutabréfaútboð, skráningu hlutafélaga, að taka að sér viðskiptavakt með hlutabréf og fjármagna fyrirtækjalán. Benedikt lagði einnig áherslu á mikilvægi gagnsæis þegar kemur að eignarhaldi á fyrirtækjum.Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, sagði í ræðu sinni að líta ætti á verðbréfamarkaðinn sem hluta af innviðum samfélagsins. Hann væri vettvangur fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins til að afla sér fjármagns og þar af leiðandi mikilvæg mælistika á verðmæti fyrirtækja og krafna, framboðs og eftirspurnar á hverjum tíma.Sigurður sagði það í raun og veru það vera kraftaverk að alvöru verðbréfamarkaður gæti þrifist í jafn litlu hagkerfi og því íslenska. En það skapaði líka efnahagsleg gæði þar sem að verðbréfamarkaðurinn gerir viðskipti möguleg sem annars hefðu ekki orðið. Því væri mikilvægt að hlúa að markaðnum. Nefndi Sigurður nokkrar úrbótatillögur í því samhengi en þær byggja meðal annars á vinnu verðbréfahóps SFF.Sigurður nefndi til að mynda að viðskiptakostnaður á verðbréfamarkaðnum væri umtalsvert hærri en í nágrannalöndunum og hægt væri að ná honum niður meðal annars með endurskoðun á skattaumhverfi fjármálafyrirtækja. Sigurður sagði einnig að reglubyrðin væri í mörgum tilfellum meiri en í nágrannalöndunum. Hann sagði SFF leggja áherslu á að starfa eftir sömu lögum og reglum og önnur Evrópulönd en of mörg dæmi væru um að stjórnvöld hefðu ekki gætt meðalhófs við innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn. Fram undan væri innleiðing á viðamiklum tilskipunum um verðbréfamarkaðinn og því væri mikilvægt að stjórnvöld hefðu meðalhófið að leiðarljósi í þeirri vinnu.Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, sagði umgjörð verðbréfamarkaðarins myndi ráða miklu um hvernig mun spilast úr þeim miklu tækifærum sem afnám gjaldeyrishaftanna fælu í sér. Því væri nauðsynlegt að umgjörðin væri með sama hætti og þekkist í Evrópu. Páll sagði tímabært væri að veita lífeyrissjóðum heimildir verðbréfalána í því samhengi. Það myndi auka arðsemi sjóðanna án þess að auka áhættutöku þeirra og stuðla á sama tíma að skilvirkari verðmyndum á verðbréfamarkaðnum. Páll sagði stjórnvöld ættu að hrinda þessum breytingum í framkvæmd núna þar sem að unnið væri að innleiðingu skortsölureglugerðar ESB á þessu ári. Þá sagði Páll að nauðsynlegt væri að veita verðbréfasjóðum heimildir til þess að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga eins og tíðkast i Noregi og til standi að gera í Svíþjóð.Að lokinni framsöguerindum tóku við pallborðsumræður. Í pallborði sátu Daði Kristjánsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, Íris Arna Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur Virðingar, Kolbrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandshótela og Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis en Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur SFF, stjórnaði umræðunum.Glærurnar af fundinum má nálgast hér.