Arðsemi íslenskra banka ein sú lægsta í Evrópu
Rætt var við Gústaf Steingrímsson, hagfræðing Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í ViðskiptaMogganum nýverið um afkomu íslensku viðskiptabankanna í evrópsku samhengi nýverið.
Í umfjöllun ViðskiptaMoggans kemur fram að arðsemi eigin fjár íslensku bankanna hafi einungis verið lægri í fjórum ríkjum af 30 Evrópuríkjum sem nýleg samantekt evrópska bankaeftirlitsins EBA nær yfir. Arðsemi eigin fjár íslenska bankakerfisins var 9,4% á fyrsta ársfjórðungi og undir arðsemismarkmiðum allra bankanna.
Í umfjölluninni kemur fram að íslenska bankakerfið hefi ekki verið neðar í evrópskum samanburði EBA á arðsemi eigin fjár frá upphafi heimsfaraldursins árið 2020. Samkvæmt umfjölluninni var meðaltal arðsemi bankakerfa ríkja EES 14,4% á fjórðungnum en stærðarvegið meðaltal arðsemi allra banka á svæðinu 10,6%.
Gústaf bendir á í viðtalinu að minnkandi arðsemi banka hér á landi megi meðal annars skýra með kólnun hagkerfisins samhliða hækkun stýrivaxta sem leitt hefur af sér minni eftirspurn eftir ýmissi fjármálaþjónustu til viðbótar við varúðarniðurfærslur tengdar náttúruhamförum í Grindavík. „Það hefur almennt verið áskorun fyrir bankana á síðustu árum að ná arðsemismarkmiðum sem eigendur, að mestu íslenska ríkið, hafa sett þeim. Ef horft er á raunarðsemi, þ.e. arðsemi að teknu tilliti til verðbólgu, hefur Ísland verið enn neðar í evrópskum samanburði,“ segir Gústaf við Morgunblaðið.
Gústaf bendir einnig á að minni arðsemi hér á landi en annars staðar í Evrópu megi að miklu leyti rekja til svokallaðs Íslandsálags sem fjallað var um í Hvítbók um framtíðarsýn um fjármálakerfið frá árinu 2018. Íslandsálagið samanstendur af náttúrulegri óhagkvæmni vegna smæðar bankakerfisins, háum sértækum bankasköttum og mjög háum eiginfjárkröfum í alþjóðlegu samhengi. Gústaf bendir jafnframt á að Seðlabankinn hafi því til viðbótar nýlega hækkað svokallaða vaxtalausa bindiskyldu á íslenska banka sem stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn líti almennt á sem ígildi skattheimtu á banka.
„Afkoma banka í flestum Evrópuríkjum hefur batnað verulega frá því vextir tóku að hækka árið 2022 í krafti aukinna vaxtatekna þar sem útlánsvextir hækkuðu mun hraðar en vextir á sparnaði. Slíkt var ekki raunin í sama mæli hér á landi enda kom fram í nýlegri samantekt Seðlabankans að vextir á hérlendum sparnaðarreikningum hefðu fylgt hækkandi stýrivöxtum mun betur en á evrusvæðinu,“ segir Gústaf enn fremur í viðtalinu við ViðskiptaMoggann.