Munur inn- og útlánsvaxta á Íslandi mælist einn sá lægsti í Evrópu

Fjallað var um þróun vaxtamunar hér á landi og í Evrópu í Morgunblaðinu nýlega þar sem rætt var við Gústaf Steingrímsson, hagfræðing Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Í fréttinni kemur fram að vaxtamunur heimila og fyrirtækja banka, þ.e. mismunur á inn- og útlánsvöxtum, hafi lækkað verulega milli áranna 2021 og 2023 hér á landi og hafi verið einn sá minnsti í Evrópu í fyrra. Þar er vísað til nýrrar skýrslu Evrópska bankaeftirlitsins (EBA) en úrtakið í skýrslunni náði yfir 22 Evrópuþjóðir. Í skýrslunni kemur fram að Ísland sker sig verulega úr í þróuninni, þar sem vaxtamunurinn hér á landi hafi minnkað um 1,3% milli áranna 2021 og 2023.

Samkvæmt skýrslunni jókst vaxtamunurinn milli ára í 18 af 22 löndum í úrtakinu, þar með talið Noregi og Svíþjóð. Vaxtamunurinn jókst að meðaltali í Evrópusambandinu úr 2,1% í 2,6% á milli áranna 2021 og 2023 og mest í Lettlandi, eða um 3,3 prósentustig. Í skýrslunni kemur fram að Ísland skeri sig verulega úr í þróuninni, þar sem vaxtamunurinn hér á landi hafi minnkað um 1,3% milli áranna 2021 og 2023, úr 3,5% í 2,2%. Evrópska bankaeftirlitið gerir ekki ráð fyrir verulegri breytingu á vaxtamuninum á þessu ári. Ísland verði áfram með einn minnsta vaxtamuninn í Evrópu á þennan mælikvarða.

Í fréttinni kemur einnig fram að á sama tíma skeri afkoma íslenskra banka sig einnig úr þróuninni í flestum öðrum Evrópuríkjum. Eftir að vextir hækkuðu í Evrópu vegna verðbólguskotsins sem fylgdi faraldrinum jókst vaxtamunurinn almennt hjá evrópskum bönkum sem leiddi til þess að hagnaður þeirra jókst verulega sem ekki hafi verið raunin í sama mæli hér á landi. Þannig hafi arðsemi eigin fjár íslenska bankakerfisins verið ein sú minnsta í Evrópu, og var sú þriðja minnsta af löndunum 22 í úrtaki EBA yfir vaxtamun og einungis minni í Þýskalandi og Frakklandi.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF), segir í samtali við Morgunblaðið að þróunin sé jákvæð fyrir neytendur, þó vaxtastigið í heild sé vissulega hátt nú um stundir. Alla jafna séu ýmsir kraftar að verki sem hafi áhrif á vaxtamun. Hluta af ástæðunni fyrir því að Ísland sé með einna minnsta vaxtamuninn megi sennilega finna í miklum hreyfanleika íslenskra neytenda á fjármálamarkaði. Könnun Gallup fyrir SFF sem birt var fyrr á árinu sýndi að hreyfanleiki neytenda milli fjármálafyrirtækja væri meiri hér en í öllum löndum ESB.

„Íslendingar eru duglegri en annars staðar í Evrópu að færa viðskipti sín eftir því hvar bestu kjörin bjóðast á hverjum tíma. Auðvelt er að stofna til bankaviðskipta í gegnum bankaöpp í snjallsímum hér á landi, sem ekki er raunin víða erlendis. Þá hefur ýmsum hindrunum verið rutt úr vegi sem auðvelda fólki að færa húsnæðislán sín milli lánveitenda á borð við afnám stimpilgjalda og takmörkun uppgreiðslugjalda.“ Niðurstaða EBA rími einnig við umfjöllun í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðuneytisins á síðasta ári, þar sem fram kom að vaxtamunur heimila á Íslandi mældist sá næstminnsti á Norðurlöndum sem og nýlega umfjöllun Seðlabankans um þróun innlánsvaxta hér og í Evrópu.

Þessu til viðbótar segir Gústaf að sú mikla hagræðing og framleiðniaukning sem náðst hefur í fjármálageiranum hér á landi á síðustu árum, m.a. með sjálfvirknivæðingu, eiga að líkindum þátt í að skýra breytinguna. Seðlabankinn fjallaði um það nýlega að rekstrarkostnaður, þ.e. launakostnaður og annar rekstrarkostnaður, stóru bankanna þriggja hefði minnkað um 39% frá árinu 2011 eða sem samsvarar 50 milljörðum króna á ári á föstu verðlagi síðasta árs. Þá sé niðurstaðan einnig vísbending um að lækkun á einum af þeim sérsköttum, sem lagðir eru á íslenskt fjármálakerfi, árið 2020 hafi skilað sér til neytenda sem sé ánægjuleg niðurstaða og í samræmi við markmið stjórnvalda. Skattarnir séu þó enn töluvert hærri en í löndunum í kringum okkur. Ráðgert er að tekjur ríkissjóðs af þeim sérsköttum og gjöldum á fjármálageirann nemi um 22 milljörðum króna á næsta ári, sem koma til viðbótar við skatta sem fjármálafyrirtæki borga líkt og önnur fyrirtæki.