Tímabundnir skattar lagðir á fjármálageirann í yfir áratug
Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í Morgunblaðinu í vikunni í tengslum við sértækaskatta á fjármálageirann í nýlega framlögð fjárlög ársins 2025. Íslensk fjármálafyrirtæki og eftirlitsskyldir aðilar munu samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2025 greiða rúma 22 milljarða króna í sérstaka skatta og gjöld sem einungis eru lögð á fjármálageirann, sem er hækkun um 1,6milljarða króna á milli ára.
Lagðir eru þrír sérskattar á fjármálafyrirtæki hér á landi, ofan á laun, hagnað og skuldir til viðbótar við sérgjöld vegna reksturs bæði Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.
Heiðrún bendir á í samtali við Morgunblaðið að sérstöku skattarnir séu hrein viðbót við þá skatta sem fjármálafyrirtæki greiða líkt og öll önnur fyrirtæki á borð við hefðbundinn tekjuskatt, tryggingagjald og fasteignagjöld. Engin hinna Norðurlandaþjóðanna gangi jafn langt í sérstakri skattlagningu á fjármálafyrirtæki. „Við höfum lagt áherslu á mikilvægi þess að íslenskur fjármálamarkaður búi við sambærilegar aðstæður og þekkjast í okkar samanburðarlöndum. Þessu til viðbótar er vaxtalaus bindiskylda hærri hér en í nágrannalöndunum, en litið hefur verið á það sem ígildi skattlagningar á fjármálafyrirtæki,“ segir Heiðrún og bætir því við að þetta hafi eðli málsins samkvæmt neikvæð áhrif á samkeppnishæfnina.
Heiðrún bendir einnig að lagt hafi verið upp með í upphafi að stærstur hluti hinnar sértæku skatta- og gjalda á fjármálageirann yrði tímabundið úrræði en sé enn við lýði meira en áratug síðar. „Það er umhugsunarefni að í upphafi stóð til að skattarnir yrðu lagðir á tímabundið til að fjármagna endurreisn efnahagslífsins eftir árið 2008 en þeir virðast núhafa fest í sessi,“ segir Heiðrún við Morgunblaðið.