Sérstakir skattar á fjármálageirann hækka um 1,6 milljarða

Fjallað var um skattlagningu á fjármálageirann í nýbirtum fjárlögum ársins 2025 í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær þar sem rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Í fréttinni kemur fram að ráðgert sé að ríkið leggi á sérstaka skatta og gjöld á fjármálageirann upp á um 22 milljarða króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem sé hækkun upp á um 1,6 milljarða króna á milli ára.

Hér á landi eru lagðir þrír sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki, sem leggjast ofan á laun, hagnað og skuldir fjármálafyrirtækja, til viðbótar við sérstök gjöld til að fjármagna bæði rekstur Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.

Heiðrún benti á að þessar álögur séu fyrir utan skatta sem fjármálafyrirtæki greiði eins og líkt og öll önnur fyrirtæki. Skattarnir hafi meðal annars neikvæð áhrif samkeppnishæfni íslenska fjármálakerfisins. Ekkert hinna Norðurlandanna gangi svo langt í sérstakri skattlagningu á fjármálageirann.

„Það skipti líka verulegu máli að búum við sterkt og samkeppnishæft fjármálakerfi sem getur stutt við bæði atvinnulífið og heimilin,“ sagði Heiðrún í viðtalinu.

Þá sé vaxtalaus bindiskylda sem Seðlabankinn leggur á fjármálafyrirtæki mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Aðilar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa talið slíka bindiskyldu ígildi skattlagningar á fjármálafyrirtæki.

Heiðrún minnti einnig á að arður af rekstri bankanna renni að stærstum hluta til ríkisins og lífeyrissjóðanna enda séu ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir stærstu eigendur bankanna.

Horfa má á fréttina í heild sinni hér: