Staðan 43-2 en ekki 1-1

Í aðdraganda kosninga til Evrópuþingsins í sumar var nokkur umræða hvort Evrópa hafi á undanförnum árum regluvætt sig frá hagvexti. Þannig hafi vaxandi regluverk á vettvangi Evrópusambandsins átt þátt í að hagkerfi Evrópu hafi dregist aftur úr Bandaríkjunum og Asíu á mörgum sviðum.

Evrópskir bankar dragast aftur úr

Á vettvangi fjármálamarkaða hefur ítrekað verið bent á hættuna af því að þungt regluverk innan Evrópu geri það erfiðara og dýrara en ella að veita fjármagn í nauðsynlega uppbyggingu atvinnuvega og innviða og þar með stuðla að áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Versnandi samkeppnishæfni fjármálageirans í Evrópu má til að mynda sjá af því að virði tíu stærstu banka Evrópu er nú nærri helmingi lægra en það var í ársbyrjun 2008. Markaðsvirði JP Morgan, stærsta banka Bandaríkjanna hefur á sama tíma fjórfaldast og er orðið hærra en virði evrópsku bankanna tíu samanlagt.

Skilvirkt og skynsamlegt regluverk og skýrar leikreglur eru nauðsynlegur hluti af starfsemi fjármálamarkaða. Engu að síður telja margir að pendúllinn innan Evrópu hafi sveiflast of langt í átt að því að ná markmiðum um neytendavernd og öruggt fjármálakerfi með ítarlegri reglusetningu. Margar reglur skapa ekki endilega meira öryggi og geta jafnvel orðið sjálfstæður áhættuþáttur þegar illmögulegt er að ná utan um umfang allra þeirra laga- og reglna sem í gildi eru. Ekki eru öll áhrif laga og reglna fyrirséð og hættan af óætluðum neikvæðum afleiðingum eykst með víðtækara regluverki, jafnvel þó reglurnar hafi verið settar af góðum hug.

Úr 12 reglugerðum í 70 á tryggingamarkaði

Sem dæmi um umfangið má nefna að reglugerðarpakkar, sem ná að einhverju leyti yfir tryggingastarfsemi, munu ef fram heldur sem horfir senn verða 70 í Evrópu en voru 12 árið 2012 að því er fram kemur í nýlegri ársskýrslu Evrópsku vátryggingasamtakanna (Insurance Europe). Við lagasetningar á vettvangi ESB bætast við ítarlegar leiðbeiningar, viðmið og túlkanir evrópskra eftirlitsstofnana sem í heild geta talið þúsundir blaðsíðna vegna einnar reglugerðar.

Kostar tíma og mikið fé

Þá er tíðni reglubreytinga einnig áhyggjuefni. Bara á síðasta ári voru um 70 laga- og reglugerðarbreytingar tengdar fjármálamörkuðum hér á landi, eða meira en ein á viku að jafnaði. Langstærstur hluti þeirra átti rætur sínar að rekja til skuldbindinga vegna EES samningsins.

Við hverja laga- og reglugerðarbreytingu þurfa fyrirtæki að aðlaga reksturinn með því að þjálfa starfsfólk, upplýsa viðskiptavini, uppfæra verkferla, tölvukerfi, vöruframboð og svo framvegis. Allt kostar þetta umtalsvert fé og tíma sem ella hefði geta verið nýtt til að sinna betur þörfum viðskiptavina. Ætla má að sá kostnaður sé hlutfallslega hærri hjá smáum fjármálafyrirtækjum á fámennum mörkuðum eins og raunin er á Íslandi. Við þetta bætist svo tilhneiging stjórnvalda margra ríkja að bæta við sérstökum reglum í sínu heimalandi, svonefnd gullhúðun eða blýhúðun, eins og fjölmörg dæmi eru um hér á landi.

Er pendúlinn að snúast við?

Forystufólk innan Evrópusambandsins hefur sagst meðvitað um stöðu mála og hafi þegar gripið til aðgerða. Dæmi séu um að við endurskoðun laga og regluverks á fjármálamarkaði hjá ESB hafi verið stigin skref í átt að einföldun fyrir þá sem regluverkið nær yfir. Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, boðaði í október síðastliðnum að fækka ætti kvöðum á fyrirtæki um skýrsluskil til evrópskra stofnana um 25% án þess að draga úr áhrifamætti regluverks sambandsins.

Mörgum þykir þó hægt ganga í þessum efnum og á fjármálamarkaði séu kröfurnar fremur að aukast en hitt. Þannig boðaði Von Der Leyen einnig svokallaða „ein inn, önnur út“ reglu árið 2019 sem átti að felast í að fyrir hverja nýja samþykkta reglugerð á vettvangi ESB væri önnur numin úr gildi. Evrópsku vátryggingasamtökin bentu á fyrir ári að í starfsáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna ársins 2023 væri staðan 43-2, það er 43 nýjar reglugerðir en tvær afnumdar.

Það væri heillaspor ef tekst að standa við fyrirheit um að létta af óþarflega íþyngjandi kvöðum og regluverki svo fjármálageirinn geti með skilvirkum hætti stutt við lífskjarasókn Evrópubúa. Annars er hætt við að Evrópa dragist enn lengra aftur úr samkeppnissvæðum sínum.

Höfundur er greininga- og samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu 14. ágúst.