Gullhúðun á fjármálamarkaði

Í maí skilaði starfshópur utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða, niðurstöðum sínum. Það hefur margsinnis verið bent á að gullhúðun hafi verið beitt í lagasetningu tengdri fjármálamörkuðum, en það kom á óvart í hve miklu magni henni hefur verið beitt. Þá virðist löggjafinn oft ekki hafa verið nægjanlega meðvitaður um hver áhrifin yrðu og kostnaðarmat hefur skort. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að þegar gullhúðun sé beitt að það liggi fyrir einhvers konar mat á áhrifum og kostnaði. Sá kostnaður lendir oftast nær að einhverju leyti á viðskiptavinum fjármálafyrirtækja.

Hvað er gullhúðun?

Hugtakið gullhúðun, sem stundum er einnig nefnt blýhúðun, er notað þegar einstakra ríki ganga lengra við innleiðingu,með íþyngjandi ákvæðum, en kröfur í EES-gerðum segja til. Gullhúðun hefur ýmsar birtingarmyndir, t.d. þessar:

  • Ítarlegri reglur í stað lágmarkskrafna
  • Gildissvið er útvíkkað
  • Undanþágur ekki nýttar
  • Strangari skilyrði sett
  • Viðurlög sett sem samræmast ekki landsrétti
  • Reglur innleiddar fyrr en nauðsyn ber til

Heilt yfir hefur EES samningurinn og aðgangur að innri markaði EES svæðisins skilað umtalsverðum ábata fyrir íslenskt efnahagslíf og er íslenskum fjármálafyrirtækjum afar mikilvægur. Umfang laga og reglna tengt EES samningnum er engu að síður verulegt en í skýrslu starfshópsins kemur fram að 3.286 tilskipanir og 8.194 reglugerðir ESB séu nú hluti af EES samningnum. Umfang innleiðingarmála hefur aukist á undanförnum árum, sem hefur aukið álag á hið opinbera, en ekki síður á þá sem þurfa að tileinka sér og fara eftir nýjum reglum, hvort sem er um að ræða fyrirtæki eða viðskiptavini þeirra. Þetta á sérstaklega við þegar kemur að fjármálaþjónustu. Slíkt skapar áskoranir fyrir fámenn ríki á borð við Ísland þegar reglurnar eru oftar en ekki miðaðar við mun fjölmennari þjóðfélög. Því skiptir miklu að ekki sé gengið lengra en þörf er á í íslenskri löggjöf.

Gullhúðun á fjármálamarkaði í yfir 50% tilfella

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu sendu starfshópnum 24 ábendingar um gullhúðun í lögum og reglum á sviði fjármálamarkaðar og var það ekki tæmandi listi. SFF hefur ítrekað bent á hve viðamikil gullhúðun er á Íslandi, hve illa hún er kynnt og að ekki sé lagt mat á kostnað og flækjustig áður en hún er samþykkt.

Í nýlegri meistararitgerð Sigrúnar Önnu Gísladóttur í lögfræði, er farið yfir innleiðingar EES- gerða á málefnasviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins með tilliti til gullhúðunar. Helstu niðurstöður hennar eru þær að gullhúðun var beitt í rúmlega helming tilvika sem tekin voru til skoðunar. Þegar gullhúðun var beitt þá var hún ekki rökstudd né tilgreind sérstaklega í 73% tilvika.

Því til viðbótar hafa íslensk stjórnvöld gengið lengra á fleiri sviðum en nágrannalöndin, til að mynda þegar kemur sérstakri viðbótar skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Sú skattlagning átti upphaflega að vera tímabundin þegar skattarnir voru leiddir í lög fyrir að verða 15 árum.

Eitt af því sem gerir fjármálakerfi ríkja öflugra og skilvirkara er að halda kostnaði niðri og forðast óþarfa flækjustig. Með yfirferð og fækkun núgildandi reglna sem fela í sér gullhúðum, en ekki síður að koma í veg fyrir óþarfa gullhúðun til framtíðar, er tækifæri til að spara verulega fjármuni fyrir þjóðfélagið í heild.

Samkeppnishæfni íslenska fjármálakerfisins skiptir sköpum í rekstri þeirra sem og þegar kemur að þeim kjörum sem þau geta boðið fyrirtækjum og heimilum hér á landi. Með þessu er ekki verið að biðja um sérmeðferð eða sérreglur, eingöngu að vara við þeim kostnaði sem íþyngjandi gullhúðun umfram nágrannaríki okkar getur haft í för með sér.

Tillögur starfshóps um úrbætur fagnaðarefni

Starfshópurinn horfði til úrbóta til framtíðar í tillögum sínum. Það þarf að leggja höfuðáherslu á að bæði þeir sem setja lögin, alþingismenn, sem og hagsmunaaðilar, þ.m.t. þeir sem þurfa að fara eftir þeim, séu vel upplýstir um það fyrirfram ef ætlunin er að gera meiri kröfur í innleiðingarlöggjöf en sem leiðir af lágmarkskröfum. Það þarf til að tryggja eðlilega og heilbrigða umræðu og vinna faglegt mat á nauðsyn þess að setja strangari kröfur en ella sem og kostnaðarmat.

SFF fagna því tillögum nefndarinnar. Þá væri gustukaverk að fara yfir þau lög og reglur þar sem gullhúðun setur auknar kröfur hér á landi, afhúða þær og styðja þannig við samkeppnishæfni okkar og draga úr þjóðfélagslegum kostnaði.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 23. júlí.