Fjármálavit gefur nýja bók um fjármál til framhaldsskóla – alls gefið 18.000 bækur á átta árum
Fræðsluvettvangurinn Fjármálavit hefur hafið að gefa nýja bók um fjármál einstaklinga til nemenda og kennara í framhaldsskólum. Bókin heitir Snjöll skref í fjármálum og er eftir Gunnar Baldvinsson viðskiptafræðing og framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins. Þegar hefur yfir 800 eintökum af bókinni verið dreift til nemanda og kennara, þeim að endurgjaldslausu, en bókin hentar vel fyrir nemendur sem eru að hefja nám í framhaldsskóla.
Þriðja bókin í sömu ritröð um fjármálalæsi fyrir ungt fólk
Bókin er þriðja bókin frá Gunnari í sömu ritröð en Fjármálavit mun áfram gefa nemendum og kennurum í grunnskólum og framhaldsskólum fyrri bækurnar tvær, Farsæl skref í fjármálum og Fyrstu skref í fjármálum. Fjármálvit hefur á síðustu átta árum gefið 18 þúsund eintökum af bókunum til 84 grunnskóla og 44 framhaldsskóla. Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu halda úti Fjármálaviti með stuðningi frá Landssamtökum lífeyrissjóða.
Snjöll skref í fjármálum eru sjálfstætt framhald af Fyrstu skrefum í fjármálum sem er inngangur að fjármálum og undanfari Farsælla skrefa í fjármálum fyrir nemendur á efri stigum framhaldsskóla og lengra komna.
Á mynd með fréttinni má sjá nemendur í Verzlunarskóla Íslands taka á móti eintökum af bókinni Snjöll skref í fjármálum sem verður nýtt í kennslu í fjármálalæsi fyrir alla nemendur á fyrsta ári í skólans.
Markmiðið að efla fjármálvit næstu kynslóða
Markmið Fjármálvits er að efla kennslu og fræðslu um fjármálalæsi meðal ungs fólks hér á landi. Til viðbótar við að gefa bækur heldur Fjármálvit árlega Fjármálaleikana, landskeppni grunnskóla í fjármálalæsi, en metþátttaka var í leikunum í ár þar sem 1.800 nemendur í 55 grunnskólum tóku þátt. Fjármálvit heldur einnig regluleg námskeið fyrir kennara og býður kennurum upp á ýmiskonar námsefni og verkefni á vef Fjármálavits, þeim að endurgjaldslausu.