ALÞINGI SAMÞYKKIR SOLVENCY II

Þann 1. september samþykkti Alþingi frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi en frumvarpið byggir á sk. Solvency II tilskipun Evrópusambandsins. Markmið tilskipunarinnar er að samræma lagaumhverfi vátryggingafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu, bæta neytendavernd og tryggja fjárhagslegan stöðugleika.Með tilskipuninni eru reglur um gjaldþol vátryggingafélaga endurskoðaðar og gjaldþolskröfur tilskipunarinnar eru áhættumiðaðar í samræmi við alþjóðlega þróun á fjármálamörkuðum. Í áhættumiðuðum gjaldþolsreglum felst að vátryggingafélög sem taka mikla áhættu eða eru með slaka áhættustýringu þurfa að gangast undir hærri gjaldþolskröfur en félög sem taka minni áhættu eða eru með góða áhættustýringu. Verklag við eftirlit verður jafnframt áhættumiðað. Áhættumiðuðu eftirliti er ætlað að vera hvati fyrir vátryggingafélög til að mæla, stýra og takmarka áhættu sína. Gjaldþolskröfur vátryggingafélaga munu taka til fleiri áhættuþátta en nú og má því ætla að gjaldþolskrafa vátryggingafélaga hækki miðað við það sem verið hefur með gildandi lögum. Mest munar væntanlega um að nú þarf að reikna gjaldþol vegna fjárfestingaráhættu. Vátryggingafélög með einfalda starfsemi geta hins vegar verið með lægri gjaldþolskröfu. Auknar kröfur um gjaldþol og áhættustýringar vátryggingafélaga hafa það að markmiði að auka vernd vátryggingartaka ásamt því að auka stöðugleika á vátryggingamarkaði.Þá eru einnig gerðar auknar kröfur um stjórnarhætti en stjórnarhættir verða að vera eðlilegir og heilbrigðir. Það þarf að vera virk áhættustýring og áhættugreining hjá vátryggingafélagi og félagið þarf að framkvæma eigið áhættu- og gjaldþolsmat. Eigið áhættu- og gjaldþolsmat vátryggingafélags er mat félagsins á heildarfjármagnsþörf þess þar sem metið er hvaða fjárhagsgrundvöllur er hæfilegur miðað við tiltekið áhættusnið, áhættuþol og viðskiptaáætlun. Í vátryggingafélagi skulu vera starfssvið sem sjá um áhættustýringu, regluvörslu, innri endurskoðun og tryggingastærðfræði.Vátryggingafélagi ber einnig að gera skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu og birta skal þessa skýrslu opinberlega.Nánar má lesa um tilskipunina hér en lögin má nálgast á hér.