Arðsemi íslensku bankanna sú sjötta lægsta í Evrópu
Rætt var við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing SFF, í umfjöllun Morgunblaðsins um arðsemi evrópskra banka.
Í fréttinni kemur fram að arðsemi eigin fjár íslensku bankanna hafi verið sjötta lægsta af 30 ríkjum á EES-svæðinu á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt samantekt evrópska bankaeftirlitsins EBA. Arðsemi íslensku bankanna nam 12% á fjórðungnum en meðalarðsemi bankakerfa á EES-svæðinu var 15,9 prósent samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins. Mest var arðsemin í Ungverjalandi eða 28,7% og þá var arðsemin hæst í Svíþjóð af Norðurlöndunum þar sem arðsemin nam 15,7%.
Í fréttinni kemur fram að arðsemi bankanna á Íslandi verið undir því sem viðgengst í atvinnulífinu almennt hér á landi undanfarin ár. Þá greiða íslensku bankarnir hærri skatta en viðgengst í nágrannalöndum Íslands og að samanburðarhæft eiginfjárhlutfall íslenska bankakerfisins sé það hæsta í Evrópu.
Yngvi Örn segir í samtali við ViðskiptaMoggann að tölurnar sýni að umræða í samfélaginu um ofurhagnað banka hér á landi eigi ekki við rök að styðjast. „Þessar tölur sýna að sú umræða er fjarstæðukennd. Arðsemi er nálægt þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en þau markmið eru ekki í samræmi við neinn ofurhagnað. Síðan má benda á að arðsemi banka er í takt við arðsemi annarra fyrirtækja í landinu og ef eitthvað er þá er hún lægri en margra fyrirtækja,“ bendir Yngvi á.
Tölurnar sýni jafnframt að arðsemi hér á landi sé hófleg í alþjóðlegum samanburði. „Umræðan um hvalrekaskatt á ekki við hér á landi. Vaxtahækkunarferlið úti í Evrópu hefur leitt til þess að vaxtamunur hefur aukist og út frá því spruttu hugmyndir um hvalrekaskatt.“