Enn úrbóta þörf fyrir næstu úttekt FATF
Rætt var við Jónu Björk Guðnadóttur, yfirlögfræðing Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í umfjöllun Morgunblaðsins um helgina um komandi úttekt FATF (Financial Action Task Force) á vörnum gegn peningaþvætti á Íslandi sem ráðgert er að hefjist á næsta ári. Í umfjöllun Morgunblaðsins er bent á að Ísland hafi farið á svokallaðan gráan lista FATF árið 2019 í kjölfar sambærilegrar úttektar á Íslandi, einkum vegna ónægra aðgerða hjá stjórnvöldum þegar kom að aðgerðum gegn peningaþvætti. Vera Íslands á gráa listanum olli einstaklingum og fyrirtækjum ýmiskonar vandkvæðum í alþjóðlegum viðskiptum.
Jóna Björk segir í samtali við Morgunblaðið að síðan þá hafi stjórnvöld lyft grettistaki í umbótum á peningaþvættisvörnum en þó séu áfram atriði sem út af standi og brýnt að úr verði bætt fyrir næstu úttekt vilji Ísland halda núverandi stöðu sinni. „Hagsmunir fjármálafyrirtækja af því að alþjóðlegum reglum um peningaþvætti sé fylgt eru gríðarlegir,“ segir Jóna Björk.
Jóna Björk nefnir þar sem dæmi að efla þurfi gagnagrunna hjá Skattinum á borð við hlutafélagaskrá og skrá um raunverulega eigendur sem og að bæta aðgengi fjármálafyrirtækja að upplýsingum úr þeim.
Reynslan hafi sýnt að það geti verið áskorun fyrir fámenn ríki á borð við Ísland að uppfylla allar kröfur viðamikilla reglugerða frá Evrópu, hvort sem það er fyrir atvinnulífið eða stjórnvöld. Þó bendir Jóna Björk á að íslensk lög um varnir gegn peningaþvætti gangi lengra en tilskipanir Evrópusambandsins segja til um, en slíkt hefur verið nefnt gullhúðun eða blýhúðun. Þetta hafi haft í för með sér íþyngjandi afleiðingar fyrir bankana, aðra tilkynningarskylda aðila og viðskiptavini þeirra án þess að fyllilega sé ljóst að hin séríslensku ákvæði hafi stuðlað að bættum vörnum í baráttunni við peningaþvætti.