Er regluverkið orðið of flókið?
Rætt var við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing Samtaka fjármálafyrirtækja, í ViðskiptaMogganum í gær um þær umfangsmiklu breytingar sem orðið hafa á regluverki tengt fjármálamörkuðum á þeim 15 árum sem eru liðin frá efnahagshruninu árið 2008.
Í viðtalinu bendir Yngvi á að mikilvægustu breytingarnar lúti að strangari eiginfjárkröfum, breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, innistæðutryggingum, fasteignalánalöggjöfinni og skilameðferðarlöggjöfinni. „Það sem upp úr stendur eru þær hörðu eiginfjárkröfur sem gerðar eru til lánastofnana og ég tala nú ekki um þá fjóra eiginfjárauka sem eftirlitsyfirvöld geta lagt á. Síðan komu ný lög um fasteignalán til neytenda en þar var meðal annars gerð krafa um greiðslumat á lánum sem ekki var áður í löggjöf. Einnig var gerð breyting á innistæðutryggingalöggjöfinni,“ segir Yngvi í viðtalinu og bætir við að skilameðferðartilskipunin hafi verið algjör nýjung en hún tekur á viðbrögðum ef til falls bankanna kæmi.
Yngvi segir að nú séu áhyggjur uppi um að regluverkið sé orðið of viðmikið. Forstöðumaður danska fjármálaeftirlitsins hafi til að mynda vakið máls á því að það ætti að skoða að einfalda regluverkið. „Það ætti að mínu mati að skoða að einfalda regluverkið með það að markmiði að gera það skilvirkara og skiljanlegra. Staðan er þannig að þetta eru tugþúsundir af blaðsíðum af tilskipunum, lögum, reglugerðum, tilmælum og leiðbeinandi tilmælum. Það er talsverð hætta á að fólk geti lent í lögvillu og viti ekki nákvæmlega hvaða lög gildi um hvaða hluti,“ segir Yngvi í viðtalinu.Yngvi bendir á að breytingar á löggjöf í kjölfar fjármálaáfalla séu oft á tíðum sniðnar að því að forða því að sama kreppan endurtaki sig. „Staðreyndin er hins vegar sú að næsta kreppa verður ef til vill allt öðruvísi og kemur úr allt annarri átt en sú síðasta. Þannig að það er ekki gefið að reglugerðarbreytingarnar komi í veg fyrir hana,“ segir Yngvi.
Regluverkið hér á landi sem snýr að fjármálamörkuðum er að mestu samevrópskt og er innleitt í gegnum Evróputilskipanir. „Hins vegar erum við með nokkur ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki sem eru strangari en annars staðar. Það er sú gullhúðun sem við höfum reynt að berjast gegn. Hægt er að nefna í þessu samhengi að bankar hér á landi lúta strangari eiginfjárkröfum en víða annars staðar. Það er erfitt að dæma hvort þær séu réttar eða rangar en þær eru harðari hér á landi,“ segir Yngvi við Morgunblaðið.