Flottur árangur Íslands í Evrópukeppni í fjármálalæsi
Marinó Máni Harðarson og Soffía Hrönn Hafstein nemendur í 10. bekk Vogaskóla tóku á dögunum þátt í Evrópukeppni í fjármálalæsi fyrir Íslands hönd sem fram fór í Brussel á vegum Evrópsku bankasamtakanna (EBF). Ísland hafnaði í öðru sæti af Norðurlöndunum og í 12. sæti í allri keppninni en það voru Austurríki, Tékkland og Norður-Makedónía sem skipuðu þrjú efstu sætin. Þátttakendur svöruðu spurningum um þekkingu þeirra almennt á persónulegum fjármálum eins og sparnað og lán og vexti og hvernig áhætta spilar þar inn í, auk þess sem áherslan var töluvert á mikilvægi netöryggis og að varast netsvikum.
Vogaskóli fór með sigur úr bítum í Fjármálaleikunum, undankeppni grunnskóla sem haldin var hér á landi í mars síðastliðnum. Metþátttaka var í Fjármálaleikunum í ár þar sem 1.800 nemendur í 55 grunnskólum. Alls tóku yfir 33.000 nemendur í 27 löndum Evrópu tóku þátt í heildina og því voru íslenskir nemendur um 5% af heildarþátttakendunum í Evrópu.
Fræðsluvettvangurinn Fjármálavit stendur að Fjármálaleikunum ár hvert en honum er haldið úti af Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu og er einnig studdur af Landssamtökum lífeyrissjóða. Að sögn Kristínar Lúðvíksdóttur, verkefnisstjóra Fjármálavits, er markmiðið með keppni í fjármálalæsi fyrst og fremst að vekja athygli á mikilvægi fjármálalæsis hjá ungu fólki og hvetja kennara og skólastjórnendur áfram í kennslu í fjármálalæsi. „Það hefur verið gaman að fylgjast með krökkunum okkar í keppninni en þau voru glæsilegir fulltrúar Íslands í Brussel,“ segir Kristín.
Þau Marinó og Soffía voru vel undirbúin fyrir keppnina enda með góða kennara sér við hlið, stærðfræðikennarana Rannveigu Möller og Hafdísi Maríu Matsdóttir sem hvöttu þau vel áfram. „Þetta var rosalega skemmtileg og lærdómsrík ferð. Það er mikill heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd og sérstaklega á svona stóru sviði. Við viljum þakka kennurunum okkar fyrir að leyfa okkur að taka þátt í þessu skemmtilega ævintýri og bekkjarfélögum okkar fyrir vinnuna í íslensku keppninni því annars hefðum við aldrei fengið þetta tækifæri,“ segja þau Soffía og Marinó.
Kennararnir Rannveig og Hafdís eru afar stoltar af öllum krökkunum í 10. bekk Vogaskóla en skólinn hefur verið virkur þátttakandi í Fjármálaleikunum undanfarin ár með góðum árangri. Þær eru sammála því að þær hafi fundið fyrir aukinni vakningu á mikilvægi fjármálalæsis undanfarin misseri og að auka megi vægi þess í aðalnámskrá grunnskóla enn frekar.
„Við erum afar stoltar af þeim Marinó Mána og Soffíu Hrönn sem hafa undirbúið sig vel fyrir keppnina og stóðu sig frábærlega,“ segja þær Rannveig og Hafdís að lokum.