Grindvíkingum boðinn greiðslufrestur á lánum
Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum við þær skelfilegu aðstæður sem þar eru nú.Íslensku viðskiptabankarnir og sparisjóðir hófu strax í kjölfar rýmingar Grindavíkur að huga að því hvernig unnt væri að koma til móts við Grindvíkinga.
Öllum heimilum í Grindavík, sem eiga íbúðalán hjá viðskiptabönkunum eða sparisjóðum, stendur nú til boða að frysta íbúðalán sín með því að fresta afborgunum lána. Lánveitendur hófu í gær að hafa samband við viðskiptavini sína, ýmist með símtölum eða tölvupóstum, þar sem þeim var boðið að fresta afborgunum lána án kostnaðar. Varðandi frekari útfærslu og kjör bendum við á að það gæti verið mismunandi eftir lánastofnunum og því mikilvægt að vera í sambandi við sinn banka eða sparisjóð.
Almennt þurfa viðskiptavinir að samþykkja að fresta afborgunum lána, það gerist ekki sjálfkrafa, og er því mikilvægt að vera í sambandi við sinn viðskiptabanka eða sparisjóð. Þar sem tíma gæti tekið að ná til allra viðskiptavina og íbúar Grindavíkur hafa ekki allir haft tök á að taka ákvarðanir eða svara þá eru viðskiptavinir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, hvattir til að setja sig í samband við sinn viðskiptabanka eða sparisjóð til að ræða þau úrræði sem standa til boða. Slíkt þarf þó ekki að gerast strax og gefst því tími til að hugsa næstu skref.
Áfram verður fylgst vel með stöðunni og upplýst eftir bestu getu.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.