Gústaf nýr hagfræðingur SFF
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa ráðið Gústaf Steingrímsson sem hagfræðing samtakanna. Gústaf hóf störf í byrjun árs.
Gústaf hefur mikla og víðtæka reynslu af fjármálamarkaði úr fyrri störfum. Hann starfaði í Landsbankanum í 16 ár, þar af um 12 ár í greiningardeild bankans. Þar sinnti hann hvers kyns greiningum og spám um hina ýmsu þætti íslensks efnahags- og fjármálalífs. Áður en Gústaf gekk til liðs við Landsbankann starfaði hann sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 2000 til 2006. Gústaf er með B.A. próf í hagfræði frá Háskóla Íslands auk meistaraprófs í fjármálum frá sama skóla.
Gústaf tekur við starfi Yngva Arnar Kristinssonar sem kominn er á þriðja æviskeiðið.„Um leið og við kveðjum Yngva með þakklæti fyrir farsælt starf í þágu SFF, þá er afar ánægjulegt að fá Gústaf inn í samhentan hóp starfsmanna okkar. Starf hagfræðings hjá SFF er ein af þungamiðjunum í starfsemi okkar og því afar mikilvægt að fá góðan mann um borð. Gústaf kemur inn með haldgóða þekkingu og reynslu af fjármálamarkaði. Hjá SFF starfa nú sex starfsmenn,” segir Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.