MBL: Kostnaðarsöm gullhúðun og hreyfanlegir neytendur
Fjallað var um gullhúðun regluverks, séríslenskar reglur og kröfur sem leiða af sér aukinn kostnað og flækjustig við að veita fjármálaþjónustu hér á landi, fjármálalæsi og mikinn hreyfanleika íslenskra neytenda í viðtali við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, í Dagmálum Morgunblaðsins í vikunni.
Í þættinum bendir Heiðrún meðal annars á að regluverkið, sé sífellt að verða flóknara og áskorun sé að ná utan um það. Það eigi þó ekki bara við hér á landi, heldur hafi evrópsku bankasamtökin nú í okkur ár gagnrýnt það mikla og vaxandi regluverk sem gildir um fjármálastarfsemi í Evrópu.
Heiðrún vekur einnig athygli á svokallaðri gullhúðun, en þar er átt við þegar stjórnvöld setja séríslenskar reglur við innleiðingu á evrópsku regluverki í lög hér landi og ganga þannig lengra en evrópska regluverkið segir til um. „Þetta flækir hlutina fyrir eftirlitsaðila, fyrirtækin og að lokum viðskiptavini,“ segir Heiðrún í þættinum.
Þá bendir Heiðrún einnig á að íslensk fjármálafyrirtæki búi við mun hærri skatta en samkeppnisaðilar í nágrannalöndum Íslands sem og hæstu eiginfjárbindingu í Evrópu, sem hafi áhrif á samkeppnishæfni landsins.
Heiðrún nefnir einnig í viðtalinu að í nýlegri könnum sem gerð var fyrir SFF kom í ljós að hreyfanleiki viðskiptavina fjármálafyrirtækja mælst meiri hér á landi en í öllum ríkjum ESB. Þetta eigi sér í lagi við þegar kemur að sparnaðarreikningum, greiðslukortum og íbúðarlánum. „Þetta kom okkur skemmtilega á óvart og mögulega er þetta vegna þess að það er tiltölulega einfalt og kostar lítið að færa sig á milli fjármálafyrirtækja. Þetta sýnir á íslenskir neytendur eru að fylgjast með og eru að gera kröfur. Það er mjög jákvætt,“ segir Heiðrún.