Rýna þurfi betur áform um innlenda greiðslulausn
Rætt var við Yngva Örn Kristinsson, hagfræðing SFF, í kvöldfréttum RÚV í gær vegna áforma stjórnvalda um nýja innlenda greiðslulausn.
Í viðtalinu benti Yngvi á að ýmsir þættir málsins væru enn óútskýrðir og rýna þyrfti málið betur. Meðal annars liggi ekki fyrir hver kostnaður við að búa til og viðhalda hinni nýju greiðslulausn verði og óljóst sé hve útbreidd notkun á slíkri lausn yrði. Þá muni ný innlend greiðslulausn ekki leysa greiðslukort tengd alþjóðlegu kortafyrirtækjunum af hólmi enda nokkur hluti kortaviðskipta á milli innlendra og erlendra aðila.
Yngvi kom inn á í viðtalinu að málið hafi meðal annars verið kynnt út frá þjóðaröryggissjónarmiði, til að mynda ef samband rofni við útlönd. Þar þurfi að horfa til þess að til séu minnst tvær útbreiddar innlendar varaleiðir í greiðslumiðlun. Annars vegar seðlar og mynt og hins vegar millifærslur í gegnum netbanka sem sé einfaldar í notkun og óháðar alþjóðlegum greiðslukerfum.
Yngvi sagði að áður en lengra yrði haldið þyrfti að skoða þjóðaröryggissjónarmiðin betur og gera mun nákvæmari kostnaðaráætlun.