Sambærileg gjöld og annars staðar á Norðurlöndunum
Að mati Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) er margt ánægjulegt í skýrslu starfshóps menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi íslenskra viðskiptabanka.
Tillögur nefndarinnar snúa að stofninum til að því að stuðla að auknu gegnsæi og hagkvæmni sem og að aukinni fræðslu í fjármálalæsi hér á landi. Þessi atriði leiða til upplýstari og betri ákvarðanatöku viðskiptavina og eru til þess fallin að efla samkeppni. Allt eru þetta atriði sem SFF fagna og hafa unnið að því að efla á undanförnum árum.
Í skýrslunni segir einnig að kostnaður vegna fjármálaþjónustu hafi lækkað að raunvirði um 15% til 17% frá árinu 2018. Það er því ánægjulegt að sjá að hagræðing í fjármálaþjónustu hafi skilað árangri í baráttu við verðbólguna.
Samkvæmt skýrslunni eru útgjöld sem neytendur greiða vegna bankaþjónustu einnig mjög sambærileg hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum sem hlutfall af neysluútgjöldum.
Þá kemur fram í skýrslunni að jafnaði megi áætla að dæmigert par greiði ríflega sex þúsund krónur á mánuði fyrir alla bankaþjónustu heimilisins aðra en vexti, eða ríflega þrjú þúsund krónur á mánuði á mann. Þessi fjárhæð er áætluð hærri hér en í Noregi sem er með lægstan kostnað en áþekk því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Fyrirkomulag þóknana vegna bankaþjónustu er talsvert mismunandi milli landa.
Þó vandasamt geti verið að draga víðtækar ályktanir af afkomu á einu ári benda niðurstöður skýrslunnar til að arðsemi íslenskra banka sé mjög sambærileg og hjá öðrum bönkum á Norðurlöndunum af álíka stærð. Þannig var arðsemi eigin fjár danskra banka sem teknir voru fyrir í skýrslunni að meðaltali 11,1% á síðasta ári, 10,7% meðal íslenskra banka en 10,5% meðal norskra banka, en meðaltal norrænna banka af svipaðri stærð var 9,6%.
SFF hafa lengi bent á að helsti munur milli íslenskra banka og banka annars staðar á Norðurlöndum liggi í að hér séu mun hærri sértækir skattar en á öðrum Norðurlöndum og auk þess eru gerðar hærri eiginfjárkröfur hér á landi sem gerir rekstur þeirra dýrari. Þessi þættir stuðla að hærri vaxtamun hér á landi eins og rakið var í Hvítbók um fjármálakerfið frá árinu 2018.
Í skýrslunni kemur fram að íslensku bönkunum hefur á undanförnum árum tekist að ná niður rekstrarkostnaði sem hefur skilað sér í hagkvæmari rekstri. Með lækkun kostnaðar hefur tekist að ná viðunandi arðsemi hjá íslenskum bönkum en arðsemi var á árunum 2016-2018 undir þeim kröfum sem eigendur gerðu til þeirra, samanber arðsemiskröfu Bankasýslu ríkisins. Um mikla hagsmuni er að ræða fyrir almenning enda ríkið og lífeyrissjóðir stærstu eigendur íslensku viðskiptabankanna.
Þess má geta að á sama tíma hefur þjónusta bankanna eflst til muna og þá ekki síst vegna aukinnar áherslu á þróun stafrænna lausna. Nú er almenn bankaþjónusta aðgengileg almenningi allan sólarhringinn í gegnum heimabanka í farsímum og tölvum.
Heilt yfir dregur skýrslan fram að þróunin á íslenskum fjármálamörkuðum síðustu ár hafi verið jákvæð og skilað sér í hagstæðari og aðgengilegri þjónustu, neytendum og samfélaginu til heilla.