SÉRTÆKIR SKATTAR ÝTA UNDIR VAXTAMUN

Sértækir skattar sem lagðir hafa verið á íslensk fjármálafyrirtæki á undanförnum árum auka kostnað og ýta undir vaxtamun á bankamarkaði. Þetta kom fram í máli Ásdísar Kristjánsdóttir, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á skattadegi Deloitte í morgun. Samkvæmt útreikningum efnahagssviðsins þá væri vaxtamunur íslenska bankakerfisins sá sami og hjá sambærilegum bönkum á Norðurlöndum ef að þessir sértæku skattar væru ekki lagðir á.Ásdís sagði vaxtamun íslenskra banka vera nú um 2,7% en væri um 2,3% ef áhrifa þessara sértæku skatta gætti ekki. Það er sambærilegur vaxtamunur og finna má hjá bönkum af svipaðri stærðargráðu í nágrannalöndunum. Þá nefndi Ásdís að til lengri tíma litið munu þessar álögur koma fram í hærri vaxtamun og þjónustugjöldum sem viðskiptavinir bera. Jafnframt munu álögurnar draga úr samkeppnishæfni innlendra fjármálafyrirtækja gagnvart erlendum. Ásdís benti á að markaðshlutdeild erlendra fyrirtækja, sem ekki búa við jafn íþyngjandi skattaumhverfi, í veitingu lána til fyrirtækja hafi aukist stöðugt á undanförnum árum.Aðildarfélög SFF munu greiða tæplega 40 milljarða króna í skatta og opinber gjöld á þessu ári. Af þessari upphæð munu þau greiða um 15 milljarða í bankaskatt, launaskatt og sérstakan fjársýsluskatt. Bankaskatturinn leggst á skuldahlið fjármálafyrirtækja og stofn launaskattsins er launagreiðslur fjármálafyrirtækja. Þetta eru ótekjutengdir skattar sem taka ekki mið af afkomu hverju sinni og hafa því mikil áhrif á rekstur fjármálafyrirtækja. Sérstaki fjársýsluskatturinn er hins vegar viðbótar tekjuskattur.Eins og fram kom í ræðu Steinþórs Pálssonar, formanns SFF, á SFF-deginum í nóvember 2015 voru þessir skattar settir á til þess að fjármagna tímabundnar aðgerðir í tengslum við efnahagskreppuna. Þrátt fyrir að þeim aðgerðum sé nú lokið hafa stjórnvöld ekki enn lýst yfir vilja til þess að afnema þá.Gera má ráð fyrir að aðildarfélög SFF greiði um 20 milljarða króna í tekjuskatt á þessu ári. Eins og fram kom í Tíund – fréttablaði Ríkisskattstjóra – á dögunum þá greiddu fjármálafyrirtæki um þriðjung alls tekjuskatts ríkisins í fyrra.