STERKT TÓL GEGN SKIPULÖGÐUM SVIKUM
Nýr tjónagrunnur, sem tekinn verður í notkun í janúar næstkomandi, er talinn munu verða áhrifaríkt tól í baráttunni gegn skipulögðum tryggingasvikum hér á landi. Slík mál hafa komið upp að undanförnu í rannsóknum á brotum skipulagðra glæpahópa hér á landi. Að mati lögreglu þá hafa þessir hópar áttað sig á því að hér á landi sé tiltölulega auðvelt að svíkja út bætur. Sé miðað við áætlaða tíðni tryggingasvika í nágrannalöndum má gera ráð fyrir að slík svik hér á landi geti numið allt að nokkrum milljörðum króna á ári en erfitt er að fullyrða nákvæmlega um umfangið. Svik sem þessi leiða þó ótvírætt til hárra og óréttmætra útgjalda tryggingafélaga og ber almenningur þannig óbeint skaðann af þessari brotastarfsemi.Viðskiptavinir vátryggingafélaganna geta leitað svara við fjölda spurninga sem kunna að koma upp um tjónagrunninn hér.Heimildir tryggingafélaganna til að rannsaka og koma upp um tryggingasvik eru mjög takmarkaðar og því verður grunnurinn mikilvægt verkfæri til að greina óvenjulegar tjónstilkynningar. Á meðal þess sem verður hægt að sjá í tjónagrunninum er hvort sama tjón hafi fengist greitt út hjá fleiru en einu tryggingafélagi, en slíkt flokkast sem fjársvik ef ekki er um réttmætar ástæður að ræða.Harald Bjerke, sérfræðingur í rekstri sambærilegs grunns í Noregi, segir að tjónagrunnar af þessu tagi séu öflugt tæki í baráttunni við tryggingasvik. Sams konar grunnur er einnig í notkun í Svíþjóð. Vísbendingar eru um að svik af þessu tagi séu í auknum mæli stunduð af skipulögðum glæpahópum. Með svikunum fjármagna þau ýmsa aðra brotastarfsemi svo sem mansal, fíkniefnainnflutning og vændi.Nýi tjónagrunnurinn verður tekinn í notkun um miðjan janúar og verða þá skráð í grunninn þau tjón sem tilkynnt eru til tryggingafélaganna sem taka þátt í verkefninu, að undanskildum tjónum sem falla undir líf- og sjúkdómatryggingar. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru rekstraraðili tjónagrunnsins samkvæmt heimild frá Persónuvernd en fyrirtækið Creditinfo hefur verið ráðið til að vera vinnsluaðili grunnsins. Grunnurinn verður aðskilinn frá öðrum rekstri Creditinfo og óheimilt verður að nýta sér upplýsingar úr honum í öðrum tilgangi en þeim að stemma stigu við tryggingasvikum. Þær upplýsingar sem verða skráðar í grunninn eru kennitala tjónþola, númer máls, tegund tryggingar, tegund tjóns, dagsetning tjóns, dagsetning skráningar í grunninn, nafn viðkomandi vátryggingarfélags, staðsetning tjóns og númer hins tryggða, svo sem ef um er að ræða ökutæki.Réttindi þeirra sem skráðir eru í grunninn verða vel tryggð, meðal annars með því að veita fólki aðgang að yfirliti yfir uppflettingar um sig í grunninum í gegnum þjónustuvef Creditinfo. Hægt er að gera athugasemdir við uppflettingar, krefjast leiðréttingar á upplýsingum séu þær ekki réttar eða jafnvel eyðingar upplýsinganna ef málefnalegar ástæður liggja að baki.Vigdís Halldórsdóttir lögfræðingur SFF:„Það munu gilda mjög strangar reglur um grunninn sem rekinn er samkvæmt heimild Persónuverndar til vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegan tjónagrunn vátryggingafélaga. Allar uppflettingar verða skráðar og rekjanlegar. Tryggt er að einungis það starfsfólk sem vinnur að tjónauppgjörum muni hafa aðgang að honum og aðeins vegna lögmætra hagsmuna við vinnslu málsins. Grunnurinn verður einungis eitt verkfæri til viðbótar við skoðun á tjónatilkynningum. Tjónum verður til að mynda aldrei hafnað á grundvelli upplýsinga úr honum einvörðungu. Þá verður óheimilt að skrá viðkvæmar upplýsingar í tjónagrunninn, svo sem um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón. Upplýsingum í tjónagrunninum verður kerfisbundið eytt þegar þeirra gerist ekki lengur þörf, í síðasta lagi þegar 10 ár eru liðin frá skráningu upplýsinganna.“Harald Bjerke, sérfræðingur í rekstri tjónagrunns FOSS í Noregi:„Norsk lögregluyfirvöld hafa lagt ríka áherslu á að uppræta skipulögð tryggingasvik en þau flokkast sem ein þeirra tegunda fjársvika sem sérlega erfitt er að koma upp um. Ástæða þess að svo mikil áhersla hefur verið lögð á að finna og refsa þeim sem verða uppvísir að skipulögðum tryggingasvikum er það mikla fjárhagstjón sem svikin valda samfélaginu. Milljónir mála koma á borð norskra tryggingafélaga á hverju ári og líkt og aðrar nútíma fjármálastofnanir þurfa þau að treysta á öfluga gagnagrunna og algóritma til að afhjúpa tölvuinnbrot og aðra skipulagða brotastarfsemi. Tjónagrunnur FOSS er sameiginlegt verkfæri til að koma auga á óvenjulegar og grunsamlegar tjónatilkynningar sem mögulega gæti þurft að skoða betur. Með því er unnið úr tjónatilkynningum á markvissari hátt og hægt að greiða hratt og vel út tjón til heiðarlegra viðskiptavina. Reynslan af þessu fyrirkomulagi hefur verið góð en nú er um áratugur liðinn frá því að tjónagrunnur FOSS var tekinn í notkun.“