Útibú í lófanum

Heiðrún Jónsdóttir og Ingvar Haraldsson skrifa:

Margir komnir um og yfir miðjan aldur muna eftir því að hafa beðið í röð á föstudegi í bankaútibúi til að leggja inn launin frá vinnuveitandanum, sem greidd voru með ávísun eða seðlum. Fólk skipti ekki svo glatt úr sínum viðskiptabanka eða sparisjóð enda voru þeir oft nátengdir ákveðnum bæjarfélögum, atvinnugreinum og jafnvel stjórnmálaskoðunum.

Í dag er landslagið gerbreytt. Tæknin gerir okkur kleift að stofna til nýrra bankaviðskipta á örfáum mínútum í gegnum snjallsíma eða tölvu. Það sem áður útheimti heimsókn í útibú, biðraðir, að fylla út  eyðublöð og bið, er hægt að leysa með nokkrum smellum í bankaappi í snjallsíma. Þannig má segja að útibúið sé komið í lófann á landsmönnum.

Hreyfanleiki neytenda mestur á Íslandi

Ein afleiðing af tæknibreytingum er að hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi hefur stóraukist. Þannig mældist hreyfanleiki neytenda á fjármálamarkaði á Íslandi meiri en í öllum löndum Evrópusambandsins samkvæmt nýlegri könnun Gallup, sem unnin var fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Í könnuninni voru neytendur spurðir sambærilegra spurninga og lagðar höfðu verið fyrir íbúa ríkja Evrópusambandsins og tengdust dæmigerðum vörum á fjármálamarkaði á borð við húsnæðislánum, greiðslukortum, sparnaðar- og bankareikningum.

Niðurstaðan var að Íslendingar voru duglegri að skipta þjónustuveitenda en þjóðir ESB þegar kom að húsnæðislánum, sparnaðarreikningum og greiðslukortum. Þá var mestur hreyfanleiki á tryggingamarkaði hér á landi samkvæmt könnuninni.

Markviss skref skilað árangri

Í skýrslu starfshóps viðskipta- og menningarráðherra um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem kom út í ágúst í fyrra var bent á að gripið hafi verið til markvissra aðgerða á undanförnum árum sem væru til þess fallin að auka hreyfanleika neytenda á fjármálamarkaði. „Ýmislegt hefur verið gert síðustu ár til að draga úr skiptikostnaði neytenda og efla þannig samkeppni á bankamarkaði. Dæmi um það er afnám hlutfallslegra lántökugjalda á húsnæðislánum, afnám stimpilgjalda á lánasamningum og takmörkun á uppgreiðslugjöldum,“ segir í skýrslunni.

Fleira má hér nefna svo sem einfaldleika rafrænna skilríkja, örar tæknibreytingar, innleiðingu rafrænna þinglýsinga, tilurð samanburðarvefsíðna þar sem neytendur geta borið saman kjör á fjármálaþjónustu og lagabreytingar á borð við PSD II sem ætlað er að opna fjármálamarkaðinn fyrir nýjum aðilum.

Ekki alls staðar jafn einfalt

Ekki er jafn auðvelt að stofna til bankaviðskipta í mörgum samanburðarríkjum Íslands og  hér á landi. Það þekkja það líklega margir sem flutt hafa erlendis og þurft að stofna bankareikning í nýju landi. Víða tíðkast að bankar velji inn viðskiptavini í bankaviðskipti og hafni sumum umsóknum.Þá tíðkast sum staðar að rukkað sé gjald fyrir stofnun bankareikninga og aðgang að heimabanka, sem ekki er gert hér á landi.

Jákvæð þróun fyrir neytendur

Lagalegar og tæknilegar breytingar hafa þannig haft í för með sér að ýmsum hindrunum hefur verið rutt úr vegi fyrir nýja aðila sem hafa hug á að bjóða neytendum upp á fjármálaþjónustu. Öflugt net útibúa er ekki lengur nauðsynleg forsenda þess að geta veitt almenningi fjármálaþjónustu. Enda hafa að undanförnu ný fyrirtæki komið inn á markaðinn sem mörg hafa náð eftirtektarverðum árangri á skömmum tíma. Þá hefur vöruframboð einnig aukist á mörgum sviðum, til að mynda þegar kemur að lánsformi húsnæðislána.

Þessi aukni hreyfanleiki og afnám hindrana er afar jákvæð þróun og til þess fallin að efla samkeppni  í þágu neytenda. Í skýrslu starfshóps viðskiptaráðherra frá því í ágúst var bent á að vaxtamunur heimila hefði lækkað á síðustu árum og væri sambærilegur við það sem viðgengst hjá mun stærri bönkum á hinum Norðurlöndunum. Svipaða sögu væri að segja af samanburði þjónustugjalda milli Norðurlandanna, þar sem gjöldin hefðu lækkað að raunvirði hér á landi á síðustu árum og var  fjármálaþjónusta álíka hlutfall af neysluútgjöldum heimila og á hinum Norðurlöndunum.

Heilt yfir hefur þróunin leitt af sér að íslenskir neytendur geta með auðveldari hætti en áður kosið með fótunum, bjóðist betri kjör annars staðar, enda segir í skýrslu starfshóps viðskiptaráðherra: „Ef neytandi vill skipta um viðskiptabanka þá er það einfalt og kostar ekkert.“

Heiðrún er framkvæmdastjóri SFF og Ingvar er greininga- og samskiptastjóri SFF.

Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 29. maí.