VARAÐ VIÐ LAUNASKATTI Á FJÁRMÁLAFYRIRTÆKI

Fjársýsluskattur felur í sér tvískattlagningu og er til þess fallinn að grafa verulega undan samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í úttekt sem ráðgjafafyrirtækið Copenahagen Economics gerðu fyrir systursamtök SFF í Svíþjóð: Svenska Bankeföreningen.Sem kunnugt er þá er fjársýsluskattur sérstakur skattur á launagreiðslur fjármálafyrirtækja. Slík skattlagning þekkist vart í Evrópu en aftur á móti er skatturinn lagður á íslensk fjármálafyrirtæki og nemur hann 5,5% á launagreiðslur.Ástæðan fyrir að sænsku bankasamtökin létu gera úttektina er sú að stjórnvöld í Svíþjóð skoða nú tillögur um að leggja 15% skatt á launagreiðslur fjármálafyrirtækja sem eru undanþegin virðisaukaskatti. Sérstakur skattur á launagreiðslur fyrirtækja sem ekki greiða virðisaukaskatt þekkist í Danmörku og Frakklandi. Íslenski launaskatturinn leggst aftur á móti eingöngu á fjármálafyrirtæki og telst ekki til rekstrarkostnaðar og er því ekki frádráttarbær frá tekjuskatti.Samkvæmt hugmyndum sænskra stjórnvalda virðast þau ætla að feta íslensku leiðina í þessum efnum og leggja slíkan skatt eingöngu á fjármálafyrirtæki . Í úttekt Copenhagen Economics er bent á að slík skattlagning feli í raun í sér tvísköttun þar sem venjulega er hægt að draga frá inn- og útskatt þegar kemur að fyrirkomulagi virðisaukaskatts.Þá segir að launaskatturinn muni bitna á getu sænskra banka til að þjónusta og fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki og á sama tíma draga úr samkeppnishæfni þeirra þegar kemur að því að viðskiptum við stærri og fjölþjóðlegri fyrirtæki.Einnig telja sérfræðingar Copenhagen Economics stjórnvöld ofmeta ábatann af launaskattinum. Sænskir bankar hafi nú þegar úthýst í miklu mæli bakvinnslu, netbankaþjónustu og annarri stoðvinnslu til ríkja á borð við Indland og Eystrasaltsríkin þar sem að launakostnaður er lægri. Launaskatturinn myndi enn frekar ýta undir þessa þróun en í úttektinni kemur fram að skattlagningin gæti fækkað störfum í sænska fjármálageiranum um allt að 16 þúsund á næstu árum. Um 120 þúsund manns starfa nú á sænska fjármálamarkaðnum. Þess má geta að frá því að launaskatturinn var lagður á hér á landi veturinn 2011-2012 hefur starfsmönnum banka og sparisjóða fækkað um fimmtung.Þá er einnig bent á í úttektinni að launaskatturinn gæti grafið verulega undan sterkri stöðu Stokkhólms og Svíþjóðar sem nýsköpunarmiðstöðvar á fjármálamarkaði. Mikil gerjun hefur verið fjárfestingu og þróun svokallaðra fjármálatæknifyrirtækja (e. FinTech) í Stokkhólmi og hefur tæplega fimmtungur af allri fjárfestingu í FinTech fyrirtækjum í Evrópu runnið til fyrirtækja staðsettra í borginni.