Verum á varðbergi gegn svikum
Rætt var við Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, nýverið um netsvik í Bítinu á Bylgjunni og á síðdegisvakt Rásar 2.
Þá skrifaði Heiðrún einnig nýlega pistil á Vísi um svokölluð Facebook Messenger svik. Með Facebook Messenger svikum er átt við tilfelli þar sem netþrjótar komast yfir Facebook Messenger aðgang einstaklinga og nýta þá til að reyna að sannfæra vini og vandamenn um að veita þeim viðkvæmar fjárhags- og persónuupplýsingar á borð við kortanúmer eða aðgangsorð að rafrænum skilríkjum. Oft hefjast samskiptin á að fólk fær skilaboð frá vini eða kunningja þar sem viðkomandi er beðinn um að gefa upp símanúmerið sitt og í kjölfarið að gef upp sífellt viðkvæmari upplýsingar. Fólk telur sig vera að ræða við einhvern sem það þekkir og treystir þegar í reynd er um netsvikara að ræða og því mikilvægt að vera á varðbergi.
Heiðrún brýndi fyrir hlustendum að beita heilbrigðri tortryggni í öllum stafrænum samskiptum. Tilraunum til netsvika fjölgaði sífellt og þær væru að verða trúverðugri en áður, til að mynda sé íslenska netsvikara almennt að verða betri og stundum sé líkt eftir orðalagi sem áður hafi verið notað í samskiptum milli einstaklinga, til að mynda í tölvupósti eða Messenger.
Góð regla í stafrænum samskiptum, á borð við tölvupósti eða Messenger skilaboðum, sé að deila aldrei viðkvæmum fjárhagsupplýsingum, lykilorðum, kortanúmerum eða aðgangsorðum. Aldrei sé hægt að vera fullviss um að einhver hafi komist inn í samskipti okkar eða eigi eftir að gera það síðar. Þá sé önnur góð regla að vakni minnsti vafi að hringja fyrst í viðkomandi einstakling, stofnun eða fyrirtæki til að vera viss um að allt sé með felldu áður en tekin er ákvörðun um á borð við að slá inn kortanúmer, lykilorð eða framkvæma greiðslu.
Þegar tilboð hljómi of gott til að vera satt sé líklegt að svo sé.
Heiðrún benti hlustendum einnig á að hægt væri að frysta kort í heimabanka eða bankaappi í farsímanum. Skynsamlegt geti verið að hafa kort sem ekki eru í reglulegri notkun fryst. Auðvelt sé að virkja kortin aftur þegar þau eru tekin í notkun.
Viðtalið við Heiðrúnu í Bítinu.
Viðtalið við Heiðrúnu á Rás 2.
Fleiri ráð til að verjast netsvikum má finna á vefnum Taktu tvær.