Landsréttur staðfestir lögmæti skilmála lána með breytilega vexti
%20(1).jpg)
Þrír dómar féllu í Landsrétti í gær þar sem viðskiptabankarnir þrír voru sýknaðir í svokölluðum vaxtamálum sem rekin hafa verið að undirlagi Neytendasamtakanna. Í málunum settu neytendur fram einkaréttarlegar kröfur á þeim grundvelli að samningsákvæði bankanna væru ósanngjörn og ólögmæt. Málin varða nánar tiltekið samningsákvæði í lánssamningum bankanna um forsendur fyrir breytingum á breytilegum vöxtum fasteignalána. Á fyrri stigum hafði héraðsdómur kallað eftir áliti EFTA dómstólsins um túlkun EES-réttar í tengslum við málaferlin. Með þessum þremur dómum Landsréttar er komin fram mikilvæg efnisleg niðurstaða um að lánaskilmálar bankanna séu lögmætir. Neytendasamtökin hafa boðað að þau muni óska eftir að Hæstiréttur muni taka málin til efnismeðferðar, en afstaða Hæstaréttar til þess liggur ekki fyrir.
Fjórði dómurinn sem féll í Landsrétti í gær, í máli Neytendastofu gegn Íslandsbanka, er annars eðlis en hinir dómarnir þrír. Þar er ekki fjallað um einkaréttarlega kröfu neytenda heldur er um að ræða allsherjarréttarlega kröfu Neytendastofu sem eftirlitsstjórnvalds. Neytendastofa fer með það hlutverk að fylgjast með því að bankinn setji fram upplýsingar í samræmi við áskilnað laga um neytendalán. Standi dómur Landsréttar sem endanleg niðurstaða, eru afleiðingarnar þær að Íslandsbanki þarf að gera breytingar á staðlaðri upplýsingagjöf sinni og lánsskilmálum sem koma til móts við athugasemdir Neytendastofu. Ekki liggur fyrir hvort málið fari til Hæstaréttar.