24 ábendingar til starfshóps um gullhúðun EES-reglna
SFF skiluðu nýverið inn ábendingum til starfshóps utanríkisráðherra gegn gullhúðun EES-reglna. SFF benda á 24 atriði í íslenskri löggjöf þar sem gengið er lengra í löggjöf um fjármálamarkaði en EES-löggjöf gerir ráð fyrir. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og líklegt að fleiri atriði muni bætast á listann.
Lengst er gengið í reglunum um kaupauka og hefur það áhrif á rekstrarskilyrði bæði stærri og minni fjármálafyrirtækja. Einnig vekur athygli að lagareglur um varnir gegn peningaþvætti eru í ýmsum atriðum strangari hér á landi en EES-reglur mæla fyrir um. Þá er gengið lengra hér á landi en EES-löggjöf mælir fyrir um hvað varðar skoðun á fjárhag lántaka áður en lán er veitt þ.e. krafist er að banki geri bæði greiðslumat og lánshæfismat á lántaka.
SFF benti einnig á, þó það falli ekki beint undir starfssvið nefndarinnar um innleiðingu EES-reglna, að ýmis séríslensk lagaákvæði gilda um fjármálastarfsemi hér á landi sem eru meira íþyngjandi en tíðkast í nágrannaríkjum Íslands. Þar má nefna að fjármálafyrirtæki hér á landi greiða þrjá sérstaka skatta sem ekki eru lagðir á aðrar atvinnugreinar á Íslandi og eru bæði víðtækari og mun hærri en þekkist í nágrannaríkjunum. Skattarnir, líkt og önnur íþyngjandi séríslensk ákvæði í lögum, koma niður á samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja og þar með á viðskiptavinum þeirra og neytendum.
Umsögnina í heild má finna hér til hliðar