Umsögn um frumvarp vegna innleiðingar reglugerðar um varfærniskröfur til lánastofnana (CRR III)
Um er að ræða umsögn um drög að frumvarpi vegna innleiðingar reglugerðar Evrópusambandsins um varfærniskröfur til lánastofnana (CRR III). SFF vill fyrst og fremst vekja athygli á þremur þáttum í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi þeirri breytingu sem verður á áhættuvogum fasteignalána með hærra veðhlutfalli sem líklegt er að muni koma harðar niður á ungu og efnaminna fólki í formi hærri útlánsvaxta. Í öðru lagi kunna strangari skilyrði um mat á virði fasteignaveðs að hafa þau áhrif að húsnæðislánafjármögnun verður bæði dýrari almennt séð og enn dýrari fyrir ungt og efnaminna fólk. Í þriðja lagi er líklegt að vaxtakostnaður vegna bygginga á nýju íbúðarhúsnæði muni hækka vegna strangari skilyrða um eigið fé sem byggingaraðilar þurfa að leggja í byggingarverkefni sem tengjast íbúðabyggingu. Það gæti hvort tveggja dregið úr framboði af nýju íbúðarhúsnæði og stuðlað að hærri íbúðaverði.