Umsögn SFF til Alþingis um stuðningslán til rekstraraðila í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga
Með frumvarpinu er lagt til að ríkissjóður ábyrgist 90% stuðningslána sem fjármálastofnanir veiti rekstraraðilum sem stundað hafa atvinnustarfsemi í Grindavíkurbæ á tilteknu tímabili og orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa jarðhræringa á Reykjanesskaga. Mælt er fyrir um að lánskjör lánanna skuli vera óverðtryggð og beri vexti sem eru jafnháir vöxtum af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni. Gert er ráð fyrir að ráðherra muni gera samning við lánastofnanir um lánveitinguna og hvernig staðið verður að greiðslu ábyrgðar ríkissjóðs ef til kemur. Fram kemur í frumvarpinu að úrræðið á sér samsvörun í stuðningslánum sem voru veitt rekstraraðilum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Að mati SFF eru ekki uppi sambærilegar aðstæður hjá rekstraraðilum í Grindavík nú og voru til staðar hjá rekstraraðilum sem áttu rétt í stuðningslánum vegna heimsfaraldursins. Þá er ólíklegt að frumvarpið svari nokkurri raunverulegri eftirspurn eftir lánum. Margir lögaðilar sem falla undir gildissvið laganna hafa misst rekstrarhæfi sitt og sumir varanlega. Þeirra vandi verður ekki leystur með því að veita ný lán.
Í umsögn leggja SFF til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
1. 100% ríkisábyrgð eða ákvæði um verðlagningu lána falli niður
Ef mælt verður fyrir um 90% ríkisábyrgð er lagt til að 10. gr. frumvarpsins falli brott og miðað verði við að lánveitendur hafi heimild til að veita þessi lán á kjörum að eigin mati sem hæfa áhættu lánsins,eins og gert var þegar viðbótarstuðningslán vegna heimsfaraldursins voru veitt.
2. Ríkisábyrgð taki til vaxta, dráttarvaxta og innheimtukostnaðar
Nauðsynlegt er að ríkið greiði útlagðan kostnað sem lánveitendur þurfa að leggja út til að fá árangurslaust fjárnám á þau félög sem ekki greiða lánin til að ríkisábyrgð virkist. Þessi kostnaður fellur án undantekninga á lánveitendur en um er að ræða bæði dýrt og tímafrekt ferli, sem krafa er gerð um af hálfu ríkisins að verði lokið áður en ríkið gengst við ábyrgðinni.
3. Of þung greiðslubyrði
Að mati SFF er endurgreiðslutími lánanna of stuttur og greiðslubyrði verður of þung fyrir þá rekstraraðila sem geta nýtt sér úrræðið.