Umsögn um frumvarp til nýrra laga um sjúklingatryggingu
Samtök fjármálafyrirtækja hafa skilað umsögn í samráðsgátt um frumvarp til nýrra laga um sjúklingatryggingu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar m.a. þær að afnema þá aðgreiningu sem gerð hefur verið eftir því hvar í heilbrigðisþjónustu tjónsatvik á sér stað, þ.e. á opinberri heilbrigðisstofnun eða einkastofu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að allir heilbrigðisstarfsmenn verði nú tryggðir opinberri tryggingu og að meðferð allra mála verði skv. stjórnsýslulögum. SFF telja jákvætt að gætt sé að jafnræði og samræmi gagnvart þeim einstaklingum sem hafa orðið fyrir því tjóni sem lögin kveða á um að séu bótaskyld með því að meðferð þeirra og uppgjör verði á einni hendi hjá Sjúkratryggingum Íslands. Samtökin gera hins vegar athugasemd við niðurfellingu ákvæðis um að skaðabótakrafa verði ekki gerð nema að því leyti sem hámarksfjárhæð sjúklingatryggingar hrekkur ekki til (7. gr. núgildandi laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000). Með niðurfellingu þessarar reglu yrðu ný lög um sjúklingatryggingu á skjön við 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og til þess fallin að viðhalda því tvöfalda kerfi sem er fyrir hendi í dag sem skapar ójafnræði og ósamræmi eftir því hvar í heilbrigðisþjónustu tjónsatvik ár sér stað.Umsögnina í heild má finna hér til hliðar.