Umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á eiginfjárbindingu og eiginfjárkröfu í framkvæmdafjármögnun
Umsögn vegna breytingar á grein 126a í Evrópugerð 575/2013 þar sem til stendur að hækka eiginfjárbindingu vegna framkvæmdafjármögnunar. SFF telur að þessi breyting geti falið í sér umtalsverð neikvæð áhrif á bæði innlenda banka og húsbyggingar hér á landi. Fjármögnunarkostnaður er hár hér á landi vegna hárrar verðbólgu hér á landi og munu þessar breytingar enn frekar hækka þann kostnað. Til viðbótar verða eiginfjárkröfur til verktaka hækkaðar sem muni einnig draga úr framboði af nýjum byggingum hér á landi. Eftirspurn eftir húsnæði hefur vaxið hraðar en framboð á síðustu árum og munu þessar breytingar enn frekar auka þá gjá. Slík lán eru umtalsverður hluti af lánabók íslenskra banka og mun hluti þeirra lána færast yfir til annarra aðila sem búa ekki við jafn ströng skilyrði eins og bankarnir. Íslenskir bankar eru sammála því að áhættuvog eigi að endurspegla undirliggjandi áhættu í hverju tilfelli fyrir sig. Þarna sé hins vegar verið að ofmeta áhættu framkvæmdafjármögnunar. Í þessu tilfelli er rétt að hafa í huga að jafnvel þó að verktaki verði gjaldþrota á verktíma sé yfirleitt hægt að finna annan sem getur þá klárað verkið og komið eigninni í fullt verð. SFF telur að í ljósi mismunandi aðstæðna í framkvæmdum eftir löndum eigi lönd að geta aðlagað reglur um eiginfjárbindingu að einhverju leyti að eigin aðstæðum.