Umsögn vegna áforma um að koma á fót innlendri smágreiðslulausn
Samtök fjármálafyrirtækja hafa skilað inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda vegna áform um lagasetningu sem snýr að því að koma á fót innlendri smágreiðslulausn. Í umsögn SFF er meðal annars bent á að viðræður standi yfir milli Seðlabankans og innlánsstofnana um að koma á fót umræddri greiðslulausn. Að mati samtakanna er mikilvægt að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir áður lög verða sett.
Þá séu millifærslur í netbönkum og seðlar og mynt þegar til staðar sem varaleiðir við greiðslukort. „Það er því ekki rétt að varaleið sé ekki til staðar þó hún sé ekki eins þjál og kortagreiðslur. Hugsanlega mætti gera endurbætur á millifærslukerfinu til þess að laga það að þörfum afgreiðslustaða og til þess að auka afkastagetu. Fyrsta skrefið áður en lengra er haldið ætti að vera að skoða slíkar endurbætur í stað þess að huga að nýrri greiðslulausn,“ segir í umsögn SFF.
Einnig þurfi að sýna betur fram á að lausnin verði ódýrari fyrir neytendur en þær lausnir sem nú eru til staðar. „SFF vill benda á að eitt af þeim atriðum sem skortir rökstuðning á er hvernig lausnin eigi að ná alvöru útbreiðslu og vera meira en bara kostnaðarsöm varaleið með óljósri virkni og þekkingu viðeigandi aðila ef skyndilega verður þörf á notkun hennar vegna rofs á öðrum leiðum. Að mati SFF standa líkur til þess þessi leið nái ekki alvöru útbreiðslu og verði virk greiðsluleið,“ segir umsögninni.
Umsögn SFF má lesa hér til hliðar