Umsögn um frumvarp um greiðslur yfir landamæri í evrum
Eitt af meginatriðunum frumvarpsins sem á rætur að rekja í EES-rétti er meginreglan um jöfn gjöld. Í henni felst að gjöld sem banki staðsettur á Íslandi leggur á notanda greiðsluþjónustu fyrir greiðslur í evrum yfir landamæri skulu vera þau sömu og gjöld sem bankinn leggur á samsvarandi greiðslur innanlands með sama virði í íslenskum krónum.
Markmiðið með setningu reglunnar í reglugerð EB nr. 924/2009 var að rýmka meginregluna um jöfn gjöld á greiðslum í evrum yfir landamæri þannig að hún væri hliðstæð því sem gerðist í innlendum greiðslum í gjaldmiðlum aðildarríkja utan evrusvæðisins. Tilgangurinn var m.ö.o. sá að veita einstaklingum og fyrirtækjum samræmda, örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði innan EES- svæðisins. SFF eru fylgjandi þessu markmiði en benda á að íslenskar aðstæður eru sérstakar hvað þetta varðar því hér á landi hefur aldrei tíðkast að bankar innheimti gjald fyrir millifærslur í íslenskum krónum. Aftur á móti hafa gjöld verið innheimt vegna millifærslna í erlendum gjaldmiðlum þ.á.m. evru.
Það liggur í augum uppi að þjóðfélagið í heild og einstakir bankar þurfa rýmri tíma en lagt er upp með í frumvarpinu til að undirbúa sig fyrir þessar veigamiklu breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu. Annað myndi ganga gegn hagsmunum viðskiptavina fjármálafyrirtækja, bæði heimila og fyrirtækja, og ekki samræmast markmiðum lagasetningarinnar um sanngjarna og réttláta verðlagningu.
Leggja SFF til að gildistöku þess hluta reglnanna sem varðar jafna verðlagningu innlendra millifærslna og evrugreiðslna verði frestað um sinn.