Umsögn vegna áforma um frumvarp til laga um kílómetragjald
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa tekið til skoðunar áform stjórnvalda þar sem fyrirhugað er að leggja fram frumvarp þar sem lagt er til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða á vegakerfinu. Í áformunum kemur fram að horft er til þess að ef lagaáformin ná fram að ganga verði á næsta ári tekin upp innheimta á kílómetragjaldi hjá eigendum hreinorku- og tengiltvinnbifreiða. Í næsta skrefi (árið 2025) verði kílómetragjaldið lagt á allan bílaflotann en sértæk bensín- og olíugjöld á eldsneyti ökutækja verði þá lækkuð eða felld brott á móti. Fyrirhugað er að innheimta kílómetragjaldsins fari fram með áþekkum hætti og tíðkast við sölu á rafmagni og heitu vatni frá veitufyrirtækjum þ.e. með skráningu notanda bifreiðar á eknum kílómetrum bifreiðar. SFF hafa fengið upplýsingar um að einnig standi til að hætta álagningu bifreiðagjalds í seinni áfanganum árið 2025.
Að mati SFF er afar jákvætt að áformin eru miðuð út því að gjaldtakan ráðist af notkun á vegakerfinu þ.e. miðað er við að þeir borgi sem nota (e. the user pays principle). SFF lesa það út úr áformunum að gert sé ráð fyrir því að skattlagningin, skyldur til skráningar og viðurlög við brotum séu lögð á umráðamann bifreiðar þegar það á við enda um að ræða skattlagningu sem felst í beinum greiðslum umráðamanns fyrir ekna kílómetra á vegakerfinu. SFF fagna því að áformin leggi skyldurnar á umráðamanninn. Slíkt er í samræmi við umferðarlög og lög um ökutækjatryggingar sem gera ráð fyrir skyldum á eiganda eða umráðamann sé hann til staðar. Samtökin leggja þunga áherslu á að það er afar mikilvægt fyrir fjármálafyrirtæki í eignaleigustarfsemi að skatturinn leggist á umráðamann en ekki eiganda í þeim tilvikum þegar um er að ræða bifreiðar sem eru fjármagnaðar með kaupleigusamningum. Skýrt þarf að vera kveðið á um í lögum að svo sé. Gera má ráð fyrir að nú séu um 50 þúsund ökutæki fjármögnuð með kaupleigusamningum á götunum. Þegar svo háttar til er fjármögnunarfyrirtækið skráður eigandi en umráðamaður sá sem notar bílinn og vegakerfið. Verði skatturinn lagður á fjármögnunarfyrirtækið mun það fela í sér afar íþyngjandi skyldur og flækjustig í viðskiptum milli fjármögnunarfyrirtækisins og umráðamanns. Umsögnina má lesa hér til hliðar.