Umsögn SFF um drög að frumvarpi um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa sent í samráðsgátt stjórnvalda umsögn um drög að frumvarpi um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. SFF fagna endurskoðun laganna á grundvelli fenginnar reynslu embættis umboðsmanns skuldara og reynslu fjármálafyrirtækja sem kröfuhafa, frá árinu 2010 þegar lögin voru upphaflega sett. Mikil reynsla er komin á framkvæmd laganna hjá þessum aðilum. Að því sögðu veldur það nokkrum vonbrigðum hversu lítið tillit hefur verið tekið til þeirra athugasemda sem fulltrúar SFF settu fram á fyrrnefndum fundi með ráðuneytinu. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að í frumvarpsdrögunum er miðað við að ákvörðun um afmáningu veðskulda skuli tekin við upphaf greiðsluaðlögunarsamnings og hún framkvæmd við samþykki samnings. Skilyrði slíkrar afmáningar hlýtur alltaf að vera að skuldari hafi staðið í skilum með greiðsluaðlögunarsamning sinn, en ekki að afmáning fari fram strax í upphafi. Ef skuldari stendur svo ekki við samning sinn og samningurinn er felldur niður hefur kröfuhafi tapað mikilvægum tryggingarréttinum sínum. Þá er eðlilegt að miða við markaðsvirði íbúðarhúsnæðis við lok greiðsluaðlögunartímabils, eins og lög nr. 50/2009 gera nú ráð fyrir, þar sem markaðsvirði getur tekið miklum breytingum á greiðsluaðlögunartímabili.