Umsögn um áform vegna innleiðingar á nýjum bankapakka ESB
Innleiðing á þessum bankapakka mun fela m.a. í sér breytingar á eiginfjárbindingu bæði fasteignalána og framkvæmdalána, þ.e. lána sem veitt eru til þess að fjármagna nýjar byggingar. Heilt yfir hafa breytingarnar varðandi fasteignalánin lítil áhrif á eiginfjárbindingu og verða jafnvel til þess að draga úr henni. Áhrif á vexti húsnæðislána í heild sinni ættu því að verða lítil. Engu að síður kunna áhrifin að verða með þeim hætti að auka eiginfjárbindingu húsnæðislána með hærra veðhlutfall en 76% og gætu því haft þau áhrif að hækka útlánsvexti til hópa með minna eigin fé mill handanna eins og fyrstu kaupenda. Áhrifin á framkvæmdalánin verða þónokkuð meiri og í neikvæða átt. Annars vegar hækkar áhættuvog slíkra lána sem ætti að öðru óbreyttu að þrýsta á hærri vexti í slíkri fjármögnun. Því til viðbótar er gerð krafa um hærra eigin fé framkvæmdaaðila í lok framkvæmda en gert er í dag. Kröfur um eigið fé fara úr 20% í 35% en mjög fá verkefni sem farið var í á síðustu árum hefðu uppfyllt þetta nýja skilyrði. Áhrif breytinganna á framkvæmdalánin kunna því að verða til hærri byggingarkostnaðar vegna dýrari lánsfjármögnunar en því til viðbótar kann framboð af nýbyggingum að dragast saman vegna hertra skilyrða um eiginfjármögnun.